Skoðun

Um vanda stúlkna í skólum

Ragnar Þór Pétursson skrifar

Ef marka má umræður er einn meginvandi íslenskra skóla sá að stúlkur ná meiri námsárangri en drengir. Að minnsta kosti er þetta eitt meginstef tiltekinna afla sem fara nú mikinn í fjölmiðlum (hafa raunar ekki verið í svona samstilltu átaksverkefni síðan þorri þeirra reið á vaðið til að reyna að hindra að ókeypis skólamáltíðir yrðu að veruleika).

Mikið er rætt um Pisa í þessu samhengi og slæman árangur drengja á þeim prófum. Bent er á að eitthvað hljóti að vera að skólakerfi sem sé svona miklu betur lagað að þörfum stúlkna en drengja. Ekkert sé að drengjunum. Eitthvað sé að kerfinu.

Ef rýnt er í niðurstöður Pisa sjást ýmsar hneigðir. Þannig er læsi á greinilegri niðurleið á heimsvísu (Ísland virkar þar eins og undanfari með snarpari kúrfu). Þjóðir heims skiptast einnig í hópa eftir tilteknum einkennum. Einn slíkur hópur eru þær þjóðir þar sem munur á námsárangri kynja verður sífellt greinilegri stúlkum í hag.

Í þeim hópi eru til dæmis lönd eins og Svíþjóð, Noregur, Danmörk, Finnland – en ekki Ísland!

Norðurlöndin og Pisa

Almenna reglan hefur verið sú að stúlkur standa sig betur á Pisa-prófunum í lestri en drengir. Það sem vakti strax athygli þegar Ísland byrjaði að taka þátt í prófunum var að hér á landi náði námsforskot stúlkna einnig til stærðfræði. Árið 2000 voru drengir sterkari en stúlkur í stærðfræði á öllum hinum Norðurlöndunum.

Síðan eru liðin mörg ár og kynjamunur í stærðfræði hefur flökt mikið. Árin 2009 (sem er undantekningarár í þátttöku Íslands í Pisa, því það ár var allmikil bæting) og 2015 mátti litlu muna að munurinn jafnaðist alveg út hér á landi. En árin 2003 og 2018 jókst hann. Árið 2022, sem er Pisa-prófið sem nú er til umræðu í samfélaginu, mældist getumunur íslenskra nemenda í stærðfræði í fyrsta sinn drengjum í vil.

Frá því Íslendingar hófu þátttöku í Pisa hefur forskot stúlkna í stærðfræði horfið með öllu á sama tíma og stúlkur hafa sótt í sig veðrið á hinum Norðurlöndunum. Kynjamunur er nú næst mestur drengjum í vil í stærðfræði á Íslandi ef Norðurlöndin eru skoðuð. Hann er mestur í Danmörku. Stúlkur eru nú áberandi sterkari en drengir í Finnlandi (nokkuð sem sást ekki fyrir 2009 en hefur verið nokkuð stöðugt síðan).

Eins og áður sagði er kynjamunur í lestri venja í Pisa-könnununum og mun greinilegri en árangursmunur í stærðfræði. Þar var Ísland í þriðja sæti í kynjamun árið 2000 (þá munaði 40 stigum á drengjum og stúlkum). Munurinn hefur minnkað (bæði hér og í Finnlandi) og nú er það aðeins Danmörk sem býr við minni mun en við.

Það er rétt að Ísland sker sig úr gagnvart hinum Norðurlöndunum þegar kynferði nemenda er skoðað. Við erum eina landið sem hefur glatað niður forskoti stúlkna gagnvart drengjum frá 2000 til 2022.

Ef einber staða landsins í kynjamun er skoðuð þá erum við með næst minnstan kynjamun í stærðfræði, við erum í þriðja til fjórða sæti í vísindum (jöfn Noregi en með minni mun en Finnland), og aðeins Danmörk er með minni mun en við í lestri. Við erum semsagt komin með mun sem er töluvert undir meðaltali norrænna ríkja.

Samt rúllar lestin áfram sem krefst þess að námsárangur á Pisa sé gerður að kynjamáli stúlkum í hag. Miklu eðlilegra hefði verið að hér á landi færi fram umræða um það hvers vegna stúlkum vegnar verr (því ekki eru strákarnir að bæta sig).

Sú umræða kemst hinsvegar ekkert úr sporunum því tilteknir miðlar eru gersamlega trénaðir þegar kemur að rýni á menntamál og virðast löngu búnir að sætta sig við að vera gjallarhorn pólitískrar yfirborðsmennsku.

Hvað einkennir Ísland?

Kynjahalli er ekki höfuðvandi eða -einkenni Íslands í þátttöku í Pisa frá 2000 til 2022. En hver er þá vandinn?

Eru það snjallsímar? Eru stúlkur hættar að hífa upp árangur íslenskra nemenda því þær eru fastar í símanum allan daginn og læra ekki neitt? Eru íslensk börn öll að verða meira og minna geðveik á því að fá að vera með síma í skólanum?

Nei.

Það mældist enginn árangursmunur á Pisa eftir skólum þegar símanotkun var skoðuð. Skólar sem banna síma (sem eru allmargir) ná ekki betri árangri en skólar sem leyfa þá (jafnvel þótt notkunin þyki sjálfsagður hlutur).

Hvað þá?

Hvað hefur breyst í skólum á Íslandi?

Er það ekki augljóst hverju og einu okkar sem höfum búið í þessu samfélagi frá aldamótum?

Jú, Ísland hefur glatað stórum hluta þess jafnræðis sem einkenndi landið. Árið 2009 var munur á árangri íslenskra nemenda á Pisa 59 stig (miklu meiri munur en nokkurntíma hefur stafað af kynjamun) eftir því hvort nemendur tilheyrðu efri eða neðri lögum samfélagsins. Frá 2009 hefur staðan haldið áfram að versna.

Árið 2022 tilheyrði rúmlega helmingur íslenskra nemenda efnahagslegri hástétt heimsins (sem er furðu lágt hlutfall þegar haft er í huga að Ísland er eitt af 10 ríkustu löndum heims). Um fjórðungur íslenskra nemenda er illa settur félags- og efnhagslega (þar af um helmingur innflytjenda). Ef þú tilheyrir hinni íslensku hástétt eru Pisa-niðurstöður þínar ekki undir meðaltali OECD að jafnaði. Þegar kom að stærðfræði munaði 72 stigum á íslenskum þjóðfélagshópum á stærðfræðiprófi Pisa 2022! Sjötíu og tveimur!

Skólinn sem jöfnunartæki

Nú skulum við hafa það algerlega á hreinu að þeir þættir sem raða nemendum í hópa eftir félagslegri og efnhagslegri stöðu hafa ekkert með skólana eða kennsluna að gera. Þetta eru einfaldir þættir eins og þeir hvort nemendur eigi öruggt þak yfir höfuðið, fái nóg að borða, hafi aðgang að tómstundum og íþróttum, geti notið samvista við foreldra sína og fengið af þeim stuðning. Og hvort þeir búi í samfélagi sem skapi fátækum sem ríkum greið tækifæri til frama.

Þið verðið að fyrirgefa en ég fæ verulegt óbragð í munninn þegar stjórnmálamenn hoppa upp á svið (gjarnan eins og nú, þegar kjarasamningar kennara eru lausir) og skammast í skólafólki fyrir að tryggja ekki að skólinn viðhaldi jöfnuði á sama tíma og þeir sjálfir hamast við að tæta í sundur jöfnuðinn í samfélaginu til dæmis með því að berjast gegn því að tryggt sé að nemendur í viðkvæmri stöðu fái örugglega að borða eina heita máltíð á dag.

Stóra breytan í því að íslensk ungmenni ná stöðugt verri árangri á Pisa er sú að sífellt stærri hópur býr við félagslegan raunveruleika sem grefur undan námsárangri. Þessi hópur stækkar og vandi hans eykst í beinu samhengi við versnandi árangur á Pisa. Allt tal um vanda drengja, sem grunnvanda skólakerfisins, er annað hvort misskilningur eða harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif.

Enn af vanda stúlkna

Þótt saga skólahalds sé löng og forn þá er saga menntunar stúlkna það ekki. Þær hafa ekki haft aðgang að almennri menntun nema í augnablik í sögulegu samhengi.

Ísland bar þess lengi merki að líkjast norðurhluta Skandinavíu að því leyti að íslenskar konur hafa, í meira mæli en karlar, notað menntakerfið til að takast á við fábreytni í samfélagsgerð. Stúlkur voru líklegri til að flytja burt úr dreifbýli og nota menntaveginn til greiða götu sína í þéttbýlinu. Þetta leiddi til þess að mikill kynjahalli varð til á ákveðnum stöðum hringinn um landið. Drengir urðu frekar eftir enda atvinnulífið að verulegu leyti hannað utan um þá.

Með aukinni hnattvæðingu er Ísland allt orðið að útjaðri sem horfir fram á sama vanda. Hér miðar efnahagslegur veruleiki fyrst og síðast við hagsmuni karla. Hvergi nærri okkur eru iðnaðarmenn á hærri launum – og hvergi er menntun verr metin til launa.

Ef skoðaðir eru aðeins þeir nemendur sem ná þeim árangri á Pisa að hafa allar forsendur til að ráða við háskólanám (sem sagt, búið er að hreinsa burt „ólæsu“ nemendurna) þá búast um 7% norskra nemenda ekki við því að ljúka háskólaprófi. Á íslandi er talan tvöfalt hærri. Íslenskir drengir telja sérstaklega ólíklegt að þeir ljúki háskólaprófi.

Það kemur engum á óvart sem býr í íslensku samfélagi. Drengir fá hærri laun en stúlkur á öllum æviskeiðum, þrátt fyrir að þeir mennti sig síður. Þegar kemur að því að semja um kaup og kjör háskólastétta fáum við í gang leikþætti eins og þann sem nú gengur yfir. Reynt er að gera starfsfólk skóla tortryggilegt eða grafið er undan því (til dæmis með því að jaðarsetja það í umræðu og gefa í skyn að það hafi lítið eða ekkert með lausn vandans að gera). Farið er af stað í hópum með vaxandi skriðþunga uns valdið telur stöðu sína orðna nógu góða til að hrinda tilraunum til að bæta kjörin.

Þetta hefur skapað afskaplega eitraðan dans sem sumar háskólastéttir taka þátt í með því að hefja á tímum kjaraviðræðna svipaðar kvartherferðið um ástand mála, t.d. í heilbrigðiskerfinu.

Allt stafar þetta af vanmætti íslenskra ráðamanna til að taka þátt í agaðri, upplýstri og málefnalegri umræðu. Sem leiðir til þess að áfram er verið að taka stefnumarkandi ákvarðanir á grunni takmarkaðs lesskilnings og andlegrar leti. Þær ákvarðanir halda áfram að grafa undan félagslegu réttlæti og jöfnuði í samfélaginu. Sem síðan grefur áfram undan menntun landsmanna og bitnar í meira mæli á konum sem enn halda í vonina um það að menntun sé raunhæf leið til að ryðja sér leið gegnum lífið. Sú von er þó augljóslega byrjuð að dofna. Það eru stóru fréttirnar af Pisa. Það er eftir öðru að sú frétt drukkni í yfirborðskenndum áróðri um stöðu drengja sem upphaf, enda og miðju íslensks skólakerfis.

Höfundur er kennari.




Skoðun

Sjá meira


×