Íslensku stelpurnar töpuðu naumlega á móti Tékkum í gær en þurftu tuttugu stiga sigur til að tryggja sér sæti í undanúrslitunum. Það tókst og gott betur.
Þetta er besti árangur tuttugu ára landsliðs kvenna frá upphafi og þær eiga enn möguleika á að komast upp í A-deild þar sem þrjár efstu þjóðirnar fara upp. Íslensku stelpurnar mæta annað hvort Belgíu eða Hollandi í undanúrslitunum en sigur þar tryggir liðinu sæti í A-deild auk þess að koma þeim í úrslitaleikinn.
Írar höfðu unnið Úkraínu í gær og því enduðu Ísland, Írland og Úkraína öll jöfn að stigum. Þessi stórsigur þýðir hins vegar að íslensku stelpurnar tryggðu sér annað sætið og sæti í undanúrslitunum á besta árangrinum í innbyrðis leikjum liðanna þriggja.
Íslenska liðið tók frumkvæðið með því að vinna fyrsta leikhlutann með sex stigum (22-16) en stakk síðan af með því að vinna annan leikhlutann 23-6. Eftir það var aldrei spurning um hvernig leikurinn færi.
Stelpurnar máttu samt ekki slaka á því þær þurftu á tuttugu stiga sigri að halda. Þær írsku áttu aldrei möguleika og íslenska liðið spilaði frábæran leik á úrslitastundu.
Keflvíkingurinn Agnes María Svansdóttir var mjög öflug með 26 stig á aðeins 28 mínútum en hún hitti úr 5 af 9 þriggja stiga skotum sínum og var einnig með 6 fráköst og 4 stoðsendingar.
Þórsarinn Eva Wium Elíasdóttir skoraði 21 stig á 24 mínútum og var einnig með 8 fráköst og 3 stoðsendingar.
Anna Lára Vignisdóttir (Keflavík) skoraði 12 stig og Jana Falsdóttir (Njarðvík) var með 7 stig og 3 stoðsendingar.
Hekla Eik Nökkvadóttir (Grindavík) var með 5 stig og 6 fráköst.
Haukakonan Kristrún Ríkey Ólafsdóttir tók flest fráköst eða tíu talsins auk þess að skora 4 stig.
Þetta er næststærsti sigur tuttugu ára landsliðs kvenna frá upphafi en sá stærsti var 84 stiga sigur á Antigua í æfingaferð. Íslenska tuttugu ára landslið kvenna hefur aldrei unnið stærra í keppnisleik.
Þjálfari liðsins er Ólafur Jónas Sigurðsson og aðstoðarþjálfarar hans eru Ásta Júlía Grímsdóttir og Berglind Gunnarsdóttir.