Enski boltinn

Liverpool vill fá fund um stúkuslagsmál Darwin Núnez

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Darwin Núnez missti algjörlega stjórn á sér og það gæti kostað hann langt bann.
Darwin Núnez missti algjörlega stjórn á sér og það gæti kostað hann langt bann. EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Forráðamenn enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool vilja fá vita alla söguna á bak við það þegar framherji liðsins Darwin Núnez hoppaði upp í stúku og slóst við áhorfendur eftir tap Úrúgvæ í undanúrslitum Suðurameríkukeppninnar.

ESPN hefur það eftir heimildarmönnum sínum að Liverpool hafi kallað eftir fundi með bæði Núnez og forráðamönnum úrúgvæska knattspyrnusambandsins.

Núnez á von á refsingu frá Knattspyrnusambandi Suður-Ameríku sem hefur tekið málið inn á sitt borð. Eftir þann úrskurð gæti Alþjóða knattspyrnusambandið blandað sér í málið og dæmt hann mögulega einnig í bann með félagsliði sínu.

Úrúgvæ tapaði 1-0 á móti Kólumbíu. Eftir leikinn sást Núnez klifra upp í stúkuna þar sem hann slóst síðan við stuðningsmenn kólumbíska liðsins.

Myndir og myndbönd náðust af atvikinu og það er ljóst að Núnez er ekki að koma vel út þar. Hann gæti því átt yfir höfði sér langt bann.

Úrúgvæska blaðið El Pais segir frá því að í þessum hluta stúkunnar hafi verið fjölskyldur og vinir landsliðsmanna Úrúgvæ. Hans vörn er því eflaust sú að hann hafi verið að passa upp á fjölskyldumeðlimi sína. Eftir atvikið var Núnez kominn með ungan son sinn í fangið.

Liverpool ætlar að finna rétta tímann til að hafa samband við leikmanninn og athuga stöðuna á honum og hans fjölskyldu. Auk þess munu forráðamenn Liverpool sækja sér upplýsingar um hvað gerðist í raun og veru.

Núnez ætti að vera á leiðinni í langþráð sumarfrí en Liverpool er á leiðinni í æfinga- og keppnisferð til Bandaríkjanna. Núnez átti að missa af þeirri ferð þar sem að hann þarf sitt sumarfrí eftir að löngu tímabili var að ljúka.

Fyrsti leikur Liverpool í ensku úrvalsdeildinni er 17. ágúst á móti nýliðum Ipswich Town.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×