Fótbolti

Declan Rice mun drekka fyrsta bjórinn ef Eng­land vinnur EM

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Declan Rice hefur meira verið í vatninu hingað til.
Declan Rice hefur meira verið í vatninu hingað til. Julian Finney/Getty Images

Declan Rice mun fá sér sinn fyrsta „almennilega bjór“ ef England verður Evrópumeistari næsta sunnudag.

Rice lofaði því sama þegar England komst í úrslit á síðasta Evrópumóti, en tap gegn Ítalíu aflétti kvöðinni. England leikur aftur til úrslita næsta sunnudag gegn Spáni.

„Ég man eftir því að hafa sagt það [fyrir síðasta úrslitaleik]. Síðan þá hef ég fengið mér bjór, en ég setti sítrónusafa í hann. Ef við vinnum mun ég fá mér almennilegan bjór. Ég mun örugglega þurfa að halda fyrir nefið samt, ég hata lyktina.“

Hvort eitthvað verði af bjórdrykkju Rice á eftir að koma í ljós en víst er að England á mjög erfiðan leik framundan gegn Spáni, sem hefur unnið alla sex leiki sína á mótinu hingað til. Þeir ensku eru þó reynslunni ríkari eftir tapið gegn Ítalíu á síðasta EM.

„Að sjá Ítalíu lyfta titlinum mun ásækja mig að eilífu. Nú fáum við annað tækifæri til að skrá okkur á spjöld sögunnar. Það er ekkert sem við þráum heitar, ekki bara fyrir okkur heldur þjálfarann líka. Hann á það skilið. Við vitum hvað við þurfum að gera, í samanburði við síðasta úrslitaleik þar sem við höfðum enga stjórn á leiknum, við megum ekki sitja eins langt til baka og þá. Við vitum hvernig við getum unnið, sem ég held að sé jákvætt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×