Fótbolti

„Hvorugt liðið sigur­strang­legra fyrir úr­slita­leikinn“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Luis de la Fuente er þjálfari Spánverja.
Luis de la Fuente er þjálfari Spánverja. Vísir/Getty

Þjálfari spænska landsliðsins í knattspyrnu Luis de la Fuente segir að hvorki Spánverjar né Englendingar séu sigurstranglegri fyrir úrslitaleik liðanna á Evrópumótinu annað kvöld. 

Úrslitaleikur Spánar og Englands fer fram í Berlín annað kvöld. Flestir telja Spánverja sigurstranglegri fyrir leikinn enda hefur liðið að margra mati spilað best allra á mótinu á meðan Englendingar hafa fengið töluverða gagnrýni.

Þjálfari Spánverja Luis de la Fuente er þó ekki á því að hans menn séu sigurstranglegri.

„Við erum rólegir. Við höfum aldrei misst sjónar á takmarkinu, við vitum af umræðunni hjá öðrum en við hugsum um hlutina á okkar hátt,“ sagði de la Fuente á blaðamannafundi í dag.

„Við vitum að það er enginn sigurstranglegri á morgun. Þetta verður mjög jafn leikur líkt og síðasti leikur sem við spiluðum,“ en Spánverjar lögðu Frakka 2-1 í undanúrslitum.

Hann segir að spænska liðið þurfi að spila enn betur en það hefur gert til þess á mótinu.

„Við látum veðmálafyrirtækin um að tala um hverjir séu líklegri. Við vitum að ef við spilum ekki betur en við höfum gert, ef við erum ekki einbeittir og gerum mistök þá munum við ekki vinna á morgun.“

„Ég veit að mitt lið er með allt sem þarf og við erum mjög spenntir. Með fullri virðingu fyrir andstæðingum okkar þá erum við mjög einbeittir á það að vinna á morgun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×