Erlent

Sánchez boðaður til að bera vitni í spillingarmáli eigin­konunnar

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Pedro Sánchez forsætisráðherra Spánar. 
Pedro Sánchez forsætisráðherra Spánar.  EPA

Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar og formaður Sósíalistaflokksins, hefur verið boðaður til að bera vitni fyrir dómi vegna rannsóknar á meintri spillingu eiginkonu hans sem er grunuð um að hafa notfært sér stöðu sína í viðskiptum. 

Dómstóll á Spáni sendi honum boðunina í dag, að því er Reuters greinir frá. Þrýstihópurinn Manos Limpias, eða Hreinar hendur, lögðu fram kæru og sökuðu Gomez um spillingu. Vegna ásakananna sagðist Sánchez íhuga að segja af sér en tilkynnti nokkrum dögum síðar að hann ætlaði ekki að gera það. Sjálf hefur Gomez enn ekki tjáð sig opinberlega um málið.

Dómstóll í Madríd fyrirskipaði rannsókn á málinu í júní og var Gomez kölluð í skýrslutöku fyrr í mánuðinum. Fram kemur í frétt Reuters að forsætisráðherrann muni sitja fyrir svörum dómara á heimili sínu Moncloa höllinni, þann 30. júlí. 

Rannsóknin snýst um hvort Gomez hafi nýtt stöðu sína sem eiginkona forsætisráðherra til að fá fjársterka aðila til þess að styrkja meistaranám sem hún hafði umsjón með. Hún mætti fyrir dómara síðasta föstudag og neitaði að svara spurningum en lögmenn hennar höfðu gefið henni þau fyrirmæli. 


Tengdar fréttir

Sánchez hættir við að segja af sér

Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar og formaður Sósíalistaflokksins, hefur ákveðið að segja ekki af sér. Hann hafði áður sagst vera að íhuga það sökum aðfarar hægriafla að sér og eiginkonu sinni.

Sánchez íhugar að segja af sér vegna meintrar spillingar

Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar og formaður Sósíalistaflokksins, hefur aflýst öllum opinberum störfum sínum út vikuna og segist íhuga að segja af sér. Ástæðuna segir hann vera eineltismál sem hann og konan hans sæti vegna meints spillingarmáls sem eigi ekki við rök að styðjast. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×