Erlent

Lög­reglu­maður skaut konu í höfuðið á heimili hennar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sonya Massey var móðir og var sögð hafa glímt við andleg veikindi. Saksóknarar og lögmaður fjölskyldu Massey eru hins vegar sammála um að lögreglumönnunum hafi ekki stafað ógn af henni.
Sonya Massey var móðir og var sögð hafa glímt við andleg veikindi. Saksóknarar og lögmaður fjölskyldu Massey eru hins vegar sammála um að lögreglumönnunum hafi ekki stafað ógn af henni. Facebook

Lögregluyfirvöld í Illinois í Bandaríkjunum hefur birt myndskeið úr búkmyndavél lögreglumanns sem sýnir hvernig kollegi hans skaut konu í höfuðið á heimili hennar.

Sonya Massey, 36 ára, hringdi sjálf í neyðarnúmerið 911 í byrjun júlí til að tilkynna um mögulegt innbrot. Lögregla svaraði útkallinu og mætti á heimili hennar í Springfield, um 320 km suður af Chicago.

Lögreglumennirnir fylgdu Massey inn á heimili hennar, þar sem hún leitaði að skilríkjum. Lögreglumaðurinn Sean Grayson varð þá var við að það var pottur með sjóðandi vatni á eldavélinni og gaf Massey ábendingu um að slökkva undir.

„Við viljum ekki eldsvoða á meðan við erum hérna,“ segir einn lögreglumannanna og virðist hlæja með Massey. 

Massey tekur pottinn og segir tvisvar: „Ég átel þig í nafni Jesús.“ Grayson virðist upplifa að honum sé ógnað, þrátt fyrir að Massey standi nokkuð langt frá honum. Hótar hann að skjóta Massey í andlitið og hrópar á hana að sleppa pottinum. 

Massey biðst afsökunar en á erfitt með að losa sig við pottinn og reynir að skýla sér á bakvið eldhúsinnréttinguna. Grayson bregst við því með því að skjóta á hana.

Hann segir síðar að það sé ekki þörf á að kalla á aðstoð þar sem hann hafi hæft Massey beint í höfuðið.

Grayson hefur verið ákærður fyrir morð og brot í starfi. 

Þá hefur Joe Biden Bandaríkjaforseti fordæmt atvikið.

„Dauðsfall Sonyu af völdum lögreglumanns í útkalli er áminning um að alltof oft þurfa svartir Bandaríkjamenn að óttast um öryggi sitt á hátt sem við hin þurfum ekki,“ sagði Biden.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×