Enski boltinn

Segir að Liver­pool muni spila með „al­vöru fram­herja“ í vetur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þjálfari Liverpool.
Þjálfari Liverpool. Justin Berl/Getty Images

Arne Slot, nýráðinn þjálfari enska knattspyrnufélagsins Liverpool, segir að sínir menn muni spila með „alvöru framherja“ á komandi tímabili eða svokallaða níu.

Hinn 45 ára gamli Slot tekur við Liverpool eftir góðan árangur með Feyenoord í heimalandinu Hollandi. Hann fær það verðuga verkefni að taka við af einum ástsælasta stjóra Liverpool frá upphafi, Jürgen Klopp.

Klopp byggði sitt besta Liverpool-lið að vissu upp á því að spila með Roberto Firmino sem falska níu. Þrátt fyrir að Firmino væri stillt upp sem fremsta manni þá var hann það sjaldan þar sem framherjar liðsins voru að venju þeir sem komust í flest færin og skoruðu mörkin.

Firmino vann hins vegar mikilvæga vinnu bæði þegar kom að pressu sem og í uppspili. Hann var hins vegar ekki nálægt því að skora jafn mörg mörk og kollegar sínir. Alls skoraði hann í 111 mörk og gaf 75 stoðsendingar í 362 leikjum fyrir Liverpool.

Slot ræddi við fjölmiðla nýverið og þar kom fram að lið hans muni spila með „alvöru framherja“ ólíkt því sem það gerði gegn Real Betis þar sem liðið er enn án fjölda lykilmanna eftir þátttöku þeirra á Evrópumótinu sem og Suður-Ameríkukeppninni.

„Á þessari leiktíð munuð þið sjá okkur spila með alvöru framherja en á þessari stundu erum við ekki með neinn leikfæran,“ sagði Slot.

Liverpool mætir nýliðum Ipswich Town í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar þann 17. ágúst næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×