Tónlist

Lalli töfra­maður sér börnunum fyrir brekkusöng

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Lalli lofar töfrum fyrir börnin á laugardag og stefnir á að jafna met Árna Johnsen í árafjölda með brekkusöng barnanna.
Lalli lofar töfrum fyrir börnin á laugardag og stefnir á að jafna met Árna Johnsen í árafjölda með brekkusöng barnanna.

Brekkusöngur barnanna fer fram i fyrsta sinn á Þjóðhátíð í Eyjum í ár. Hann verður í umsjón Lalla töframanns og fer fram á Tjarnarsviðinu klukkan 14:30 á laugardag. Lalli segist vera spenntur fyrir hinni nýju hefð og reiðubúinn að standa vaktina næstu ár.

Sjálfur brekkusöngurinn hefur verið árlegur viðburður á Þjóðhátíð allt frá árinu 1977 þegar Árni Johnsen stýrði honum í fyrsta sinn. Það gerði hann til ársins 2002 eða í heil 25 ár og stefnir Lalli á að gera slíkt hið sama með brekkusöng barnanna.

„Ég er meira en til í að skrifa upp á samning við Þjóðhátíðarnefnd um að vera með brekkusöng barnanna næstu 25 árin ef það er í boði,“ segir Lalli hlæjandi.

„Það er auðvitað löngu kominn tími á það að við heiðrum börnin og þeirra frábæra tónlistarsmekk með söng, kennum börnunum okkar að syngja almennilegan brekkusöng og er það nákvæmlega það sem við ætlum að gera í ár með því að halda brekkusöng barnanna,“ segir Lalli.

„Stefnan er klárlega sett á það að Lalli töframaður sjái um brekkusöng barnanna að lágmarki næstu 25 árin,“ segir Lalli sjálfur. „Það var löngu kominn tími á þessa nýju og skemmtilegu hefð sem brekkusöngur barnanna mun verða. Svo er það bara tíminn sem mun leiða það í ljós hvort að þessi nýja hefð muni færa sig upp á stóra sviðið á komandi árum.“

En hvers vegna er Lalli töframaður að sjá um brekkusöng barnanna?

„Þegar Þjóðhátíðarnefnd hafði samband við mig um að koma og glæða Þjóðhátíð einn meiri töfrum að þá spurði ég þau einfaldlega út í þessa hugmynd um að vera með brekkusöng barnanna og þeim leist strax mjög vel á það,“ segir Lalli.

Þó svo að Lalli sé ekki þekktur fyrir gítarspil og söng að þá hefur hann engu að síður gefið út heila jólaplötu og segist notast mikið við gítarinn þegar hann er að veislustýra. „Gítarinn kemur alltaf með þegar ég er veislustjóri því þegar fólk er komið í stuð að þá er fátt sem sameinar okkur betur en að syngja smá saman.“

Jóhanna Guðrún flytur Þjóðhátíðarlagið í ár sem nefnist „Töfrar.“ Hún mun einnig koma fram á barnaskemmtuninni á laugardeginum. Lalli heitir því að það verði sannkallaðir töfrar á sviðinu á laugardag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×