Þetta hafa miðlar vestanhafs eftir framboði Harris en talsmenn þess segja að staðsetning fundarins sé ekki til marks um það hver verður fyrir valinu.
Það vekur þó athygli að Josh Shapiro, ríkisstjóri Pennsylvaníu, sem er meðal efstu á lista yfir möguleg varaforsetaefni, ólst upp í úthverfum Philadelphiu og er ötull stuðningsmaður íþróttaliða borgarinnar.
„Ef þú hefur eitthvað að segja, segðu það þá við mig augliti til auglitis,“ sagði Harris á kosningafundi í Atlanta í gær. Skilaboðin voru ætluð Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta og forsetaefni Repúblikanaflokksins, sem virðist vera að draga í land með að mæta Harris í kappræðum.
Harris mun ferðast um svokölluð barátturíki í næstu viku en öldungadeildarþingmaðurinn JD Vance, varaforsetaefni Trump, efndi til tveggja kosningafunda í Nevada í gær.
Notaði hann ræður sínar til að ráðast gegn Harris og sakaði hana meðal annars um að „leyfa“ innflytjendum að myrða Bandaríkjamenn og að „bjóða“ eiturlyfjagengjum að selja börnum fentanyl á leikvöllum.
Þá sagði hann Harris „dirfast“ að efast um hollustu hans og Trump við Bandaríkin og sagði það sýna hollustu að loka landamærunum, ekki opna þau.