Innlent

Rangt að ráðu­neytið hafi gefið út leið­beiningar um kenninöfn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Guðrún Hafsteinsdóttir er dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir er dómsmálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Dómsmálaráðuneytið segist ekki hafa gefið út leiðbeiningar, hvorki almennar né sérstakar, varðandi túlkun á 16. grein laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Þá segist ráðuneytið ekki hafa gefið sérstakar leiðbeiningar þegar erlendur ríkisborgari, Mohamad Th. Jóhannesson, fékk kenninafni sínu breytt en hann hét áður Mohamad Kourani og hefur verið dæmdur fyrir margvísleg brot.

Frá þessu er greint á vef dómsmálaráðuneytisins og vísað í fjölmiðlaumfjöllun þess efnis að Þjóðskrá Íslands hefði stuðst við leiðbeiningar dómsmálaráðuneytisins við túlkun undanþáguákvæðis um kenninafnabreytingar.

Vísir hefur meðal annars haft það eftir Soffíu Svanhildar-Felixdóttur, deildarstjóra þjónustu og skráningar hjá Þjóðskrá, að framkvæmdin við beitingu undanþáguákvæðisins væri nokkuð ströng og háð leiðbeiningum frá dómsmálaráðuneytinu.

„Ákvarðanir Þjóðskrár Íslands á grundvelli laga um mannanöfn eru kæranlegar til dómsmálaráðuneytisins. Af framkvæmd úrskurða í kærumálum þar sem synjanir Þjóðskrár Íslands eru kærðar til ráðuneytisins mótast óhjákvæmilega viðmið sem kunna að hafa fordæmisgildi í sambærilegum málum. Svo háttaði þó ekki til í því máli sem hefur verið fjallað um í fjölmiðlum,“ segir á vef dómsmálaráðuneytisins.

Skírskotun Þjóðskrár til leiðbeininga frá ráðuneytinu hafi því ekki verið rétt og til þess fallin að valda misskilningi, sem rétt sé að leiðrétta.

„Ráðuneytið hefur komið þessum sjónarmiðum á framfæri við Þjóðskrá Íslands.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×