„Þetta dæmi er kannski eins og mörg önnur dæmi í samfélaginu í dag. Stundum ræðum við alveg ótrúlega mikið um eitthvað sem að kannski skiptir ekki meginmáli, og ótrúlega lítið um stóru málin sem varða framtíð þessa lands og þessarar þjóðar,“ sagði Halla.
„Við höfum lært af þessu og ég vona að aðrir hafi lært af þessu,“ sagði hún.
Hún segir skiljanlegt að traustið sé lítið í samfélaginu, en kannski þurfum við að læra lyfta okkur upp í umræðunni, og taka dýpra og vandaðra samtal um það sem að raunverulega skiptir máli í samfélaginu.
Heilmikið hefur verið rætt og ritað um bílakaup þeirra hjóna, og í gær lagði Guðni Th. fráfarandi forseti orð í belg, og sagði hegðun bílaumboðsins óforskammaða.
Allir ættu að vita að ekki megi auglýsa forsetann
Halla segist vona að það verði aldrei þannig að þau þurfi að segja við alla sem biðji um mynd, að ekki megi nota þær í auglýsingarskyni.
„Ég held að það ættu allir að vita það, en þarna lærum við mikilvæga lexíu að kannski þurfum við að áminna fólk líka, við erum kannski grunlaus þarna og pínu ný í þessu.“
Hún tekur undir með Guðna sem sagði í viðtali í gær, að þau sem gegni opinberum störfum eigi að fá að vera manneskjur líka og eigi skilið virðingu. Þau eigi ekki að þurfa byggja upp þykkan skráp til að geta gegnt hlutverkum í samfélaginu.
„Ég hef sagt það að ég sé með breitt bak en opið hjarta. Ég held að við vitum að við þurfum að vera það í þessu embætti,“ sagði Halla Tómasdóttir.
Viðtal Stöðvar 2 við Höllu má finna í heild sinni hér að neðan: