LeBron og félagar hans í bandaríska körfuboltalandsliðinu eru á fullu á Ólympíuleikunum. Þegar þeir eru ekki að keppa hafa þeir nýtt tímann til að fylgjast með öðrum íþróttum í París.
Í fyrradag skellti LeBron sér ásamt fjölskyldu sinni á leik í strandblaki. Hann skemmti sér vel á leiknum, fékk sér smá rauðvín og dansaði aðeins.
Það fannst dóttur hans, Zhuri, alveg síðasta sort. Hún greip um andlit sitt og skammaðist sín greinilega niður í tær fyrir pabba gamla.
Zhuri hefur þó ekki þurft að skammast sín mikið fyrir pabba sinn inni á körfuboltavellinum í París.
LeBron skoraði 21 stig, tók níu fráköst og gaf sjö stoðsendingar í sigrinum á Serbíu og var með tólf stig, sjö fráköst og fimm stoðsendingar þegar Bandaríkin unnu Suður-Súdan. Næsti leikur bandaríska liðsins gegn Púertó Ríkó í dag.
LeBron, sem er 39 ára, er á sínum fjórðu Ólympíuleikum. Hann vann gull í Peking 2008 og London 2012 og brons í Aþenu 2004.