Fótbolti

Hreinsanir hjá Juventus: Ætla að selja Chiesa og Szczesny

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Federico Chiesa er á förum frá Juventus.
Federico Chiesa er á förum frá Juventus. getty/Image Photo Agency

Thiago Motta, nýr knattspyrnustjóri Juventus, ætlar að gera róttækar breytingar á liðinu og hefur sett átta leikmenn á sölulista.

Meðal leikmanna sem Juventus ætlar að selja í sumar eru sóknarmaðurinn Federico Chiesa og markvörðurinn Wojciech Szczesny.

Motta tók við Juventus í sumar eftir að hafa náð frábærum árangri með Bologna og komið liðinu í Meistaradeild Evrópu.

Hann hefur ekki setið auðum höndum síðan hann tók til starfa hjá Juventus og ætlar að hrista verulega upp í leikmannahópi liðsins.

Átta leikmenn hafa verið settir á sölulista en Juventus vonast til að geta losnað við þá til að fá fjármagn til að kaupa nýja leikmenn.

Auk Chiesas og Szczesnys eru Arthur Melo, Filip Kostic, Mattia De Sciglio, Daniele Rugani, Weston McKennie og Hans Nicolussi-Caviglia til sölu.

Eftir að hafa orðið ítalskur meistari níu ár í röð hefur Juventus ekki unnið titilinn undanfarin fjögur ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×