Enski boltinn

Arnór lagði upp í stór­sigri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnór lagði upp fyrsta mark kvöldsins.
Arnór lagði upp fyrsta mark kvöldsins. Nick Potts/Getty Images

Þónokkrir Íslendingar komu við sögu í enska deildarbikar karla í fótbolta í kvöld. Arnór Sigurðsson lagði upp eitt af sex mörkum Blackburn Rovers og Alfons Sampsted kom inn af bekknum í sínum fyrsta leik fyrir Birmingham City.

Blackburn heimsótti Stockport County er deild neðar og unnu gestirnir gríðarlega öruggan sigur. Arnór lagði upp fyrsta markið sem Sammie Szmodics skoraði en sá gat vart hætt að skora á síðasta tímabili og byrjar af krafti í ár en hann skoraði tvö í 6-1 sigri gestanna.

Arnór spilaði allan leikinn á vinstri væng Blackburn eftir að hafa ekki komið við sögu í 4-2 sigri liðsins á Derby County í 1. umferð ensku B-deildarinnar.

Alfons Sampsted gekk nýverið í raðir Birmingham City sem leikur í ensku C-deildinni á komandi leiktíð. Hann hóf leik kvöldsins gegn Charlton Athletic á bekknum en kom inn á þegar rúmar 20 mínútur lifðu leiks.

Heimamenn í Charlton klúðruðu víti í leiknum sem Birmingham vann 1-0. Willum Þór Willumson var ekki í leikmannahóp Birmingham vegna meiðsla.

Þá var Stefán Teitur Þórðarson á bekknum þegar Preston North End tók á móti Sunderland. Eftir tap í fyrsta deildarleik Preston ákvað félagið að láta þjálfara sinn fara en sá var mikill aðdáandi Stefáns Teits.

Skagamaðurinn kom inn af bekknum á 69. mínútu og aðeins mínútu síðar má segja að Preston hafi tryggt sigurinn með öðru marki sínu í leiknum, lokatölur 2-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×