Enski boltinn

Vonarstjarna City og Noregs fót­brotnaði

Sindri Sverrisson skrifar
Oscar Bobb þótti sýna afar góða takta í leiknum um Samfélagsskjöldinn um helgina. Manchester City vann í vítaspyrnukeppni.
Oscar Bobb þótti sýna afar góða takta í leiknum um Samfélagsskjöldinn um helgina. Manchester City vann í vítaspyrnukeppni. Getty/Rob Newell

Norðmaðurinn ungi Oscar Bobb mun ekki spila með Englandsmeisturum Manchester City næstu mánuðina eftir að hafa fótbrotnað á æfingu liðsins.

Jack Gaughan, blaðamaður Daily Mail, greindi frá þessu í kvöld og sagði auðvelt að kenna í brjósti um Bobb sem fór mikinn á undirbúningstímabilinu með City og leit vel út í leiknum um Samfélagsskjöldinn um síðustu helgi. Þar átti hann stoðsendingu á Bernardo Silva og var valinn maður leiksins en City vann í vítaspyrnukeppni.

Gaughan segir ljóst að Bobb hefði getað tryggt sér hægri kantstöðuna hjá City í vetur en það verður þá varla fyrr en eftir áramót.

Blaðamaðurinn Fabrizio Romano segir að Bobb verði frá keppni í nokkra mánuði en þessi 21 árs gamli leikmaður kom við sögu í 14 deildarleikjum á síðustu leiktíð og skoraði eitt mark.

Fótbrotið er ekki bara áfall fyrir Bobb og City heldur einnig norska landsliðið en þjálfari þess Ståle Solbakken, sagði við VG í Noregi:

„Það kom upp atvik á æfingu í dag sem því miður endaði illa fyrir Oscar. Ég bíð eftir endanlegri skýrslu en það bendir allt til þess að hann verði lengi frá,“ sagði Solbakken.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×