Lazar Dukic drukknaði í fyrstu grein heimsleikanna í ár. Margir hafa minnst Serbans og sent fjölskyldu hans og vinum samúðar- og stuðningskveðjur. Snorri bættist í þann hóp í gær en hann er í annarri stöðu en margir aðrir.
„Heimsleikarnir í CrossFit. Tími til að fagna hraustleika, frábæru formi og góðri keppni. Hápunktur hvers árs fyrir alla sem koma að keppni í líkamshreysti. Það fór mjög illa í ár. Hið óhugsandi gerðist. Maður drukknaði í fyrstu grein. Nafnið hans var Lazar Dukic,“ hóf Snorri pistil sinn.
„Ég skrifa þessar línur til að votta Lazar virðingu mína. Ég þekkti hann. Við unnum saman um tíma en undanfarin tvö ár höfðum við ekki sagt eitt orð við hvorn annan,“ skrifaði Snorri.
Of þrjóskur og of stoltur
„Það kom til vegna lítillar færslu sem ég setti inn á samfélagsmiðla. Hann gerði mér grein fyrir því að hann var ósáttur en ég var of þrjóskur til að sætta mig við hans sjónarhorn og of stoltur til að biðjast almennilega afsökunar,“ skrifaði Snorri.
„Dagarnir breyttust í vikur, vikur í mánuði og mánuðir í ár. Í síðustu skipti sem við höfum verið á sama stað þá hugsaði ég oft um að nýta það tækifærið. Leggja fram sáttarhönd og reyna að hreinsa loftið. Ég gerði það hins vegar aldrei og sé mikið eftir því,“ skrifaði Snorri.
Einn af þeim allra bestu
Snorri Barón hrósar líka frammistöðu Lazars í CrossFit undanfarin ár.
„Það er ekki hægt að gera of mikið úr áhrifum og mikilvægi Lazars fyrir íþróttina. Hann endaði aldrei utan topp tíu á heimsleikunum og hafði unnið undanúrslit Evrópu undanfarin þrjú ár. Hann var einn af þeim allra bestu,“ skrifaði Snorri.
„Hann var einn af örfáum íþróttamönnum sem gátu farið alla leið. Hann hélt öðrum mönnum á tánum,“ skrifaði Snorri.
Litríkur persónuleiki
Snorri segir að Lazars hafi verið duglegur að skjóta á keppinauta sína og keyra upp í þeim keppnisandann.
„Litríkur persónuleiki sem lýsti upp öll herbergi. Íþróttin verður aldrei sú sama aftur,“ skrifaði Snorri og sendi fjölskyldu og ástvinum Lazars sínar innilegustu samúðarkveðjur.