Erlent

Slags­mál brutust út meðal þing­manna

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Tveir þingmenn leituðu sér læknisaðstoðar eftir slagsmálin.
Tveir þingmenn leituðu sér læknisaðstoðar eftir slagsmálin. Getty/Mustafa Istemi

Slagsmál brutust út meðal þingmanna á tyrkneska þinginu í gær þegar deilt var um fangelsaðan þingmann stjórnarandstöðunnar sem sviptur var umboði sínu fyrr á árinu.

Tveir særðust og var þingfundi frestað en var hann settur á nýjan leik skömmu síðar og var tillaga um að veita lögmanninum og aðgerðarsinnanum Can Atalay umboð sitt aftur felld. Atalay hlaut kjör til þingsins eftir að hafa rekið kosningabaráttu úr fangelsi. 

Þingmaður Verkamannaflokks Tyrklands fordæmdi meðferð ríkisstjórnarinnar á Atalay úr ræðustól þegar Alpay Ozalan, þingmaður AKP, flokks Recep Tayyip Erdoğans, veittist að honum.

„Það er ekki furða að þið skulið kalla Atalay hryðjuverkamenn,“ hefur Guardian eftir Ahmet Sik, þingmanni Verkamannaflokksins í pontu.

„En allir borgarar ættu að vita að mestu hryðjuverkamenn þessa lands eru þeir sem sitja á þessum bekkjum,“ sagði hann þá og átti við þingmenn ríkisstjórnarinnar.

Illa var tekið í þessi ummæli hans og gekk Alpay Ozalan að Sik ásamt hópi þingmanna AKP og hrinti honum úr pontu og niður á gólfið. Þar sem Sik lá á gólfinu var hann ítrekað kýldur af þingmönnum ríkisstjórnarinnar og tugir tóku þátt í slagsmálunum sem brutust út.

Í kjölfar handalögmálanna þurftu tveir þingmenn að leita sér læknisaðstoðar vegna eymsla í höfði.

Can Atalay var sviptur þingsæti sínu í janúar en hann var dæmdur til átján ára fangelsisvistar fyrir að standa að umfangsmiklum mótmælum gegn ríkisstjórn Erdoğans í Istanbúl árið 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×