Jóhann Berg sat á bekknum þegar leikur Burnley og Cardiff City var flautaður á. Hann kom inn af bekknum þegar staðan var 3-0 Burnley í vil. Skoraði hann fimmta mark heimamanna í uppbótartíma með sínum lakari hægri fæti, lokatölur 5-0 Burnley í vil. Sitja Jóhann Berg og félagar á toppi ensku B-deildarinnar með fullt hús stiga eftir tvær umferðir.
Arnór Sigurðsson kom inn af bekknum undir lok leiks þegar Blackburn Rovers gerði 2-2 jafntefli við Norwich City á útivelli og Stefán Teitur Þórðarson spilaði allan leikinn þegar Preston North End tapaði 3-0 fyrir Swansea City í Wales.
Willum Þór og Alfons Sampsted hófu báðir leik á varamannabekk Birmingham þegar liðið sótti Wycombe heim. Willum Þór kom inn af bekknum þegar rúmlega klukkutími var liðinn og þegar átta mínútur lifðu leiks kom hann gestunum 3-1 yfir með þrumuskoti eftir góða skyndisókn.
Á síðustu mínútu venjulegs leiktíma minnkuðu heimamenn muninn í 3-2 og í uppbótartíma kom Alfons inn á fyrir meiddan Willum Þór.
Ekki kemur fram hvort um alvarleg meiðsli sé að ræða en leiknum lauk með 3-2 sigri Birmingham sem er nú með fjögur stig að loknum tveimur umferðum í ensku C-deildinni.