Erlent

Ungir og ó­reyndir Rússar á landa­mærunum

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Rússneskur stríðsfangi sem tekinn var í Kursk-héraði.
Rússneskur stríðsfangi sem tekinn var í Kursk-héraði. gettyViktor Fridshon/Global Images Ukraine

Talsmaður úkraínska hersins segir um 100 til 150 rússneska hermenn hneppta í prísund á hverjum degi í Kursk-héraði í Rússlandi, þar sem Úkraínumenn halda áfram sókn sinni. Það séu meira eða minna ungir hermenn sem hafi nýlega verið kvaddir í herinn og hafi lítinn áhuga á að berjast.

Guardian hefur eftir Oleksii Drozdenko, sem stýrir aðgerðum hersins í nágrenni við borgina Sumy, að árásirnar í Kursk hefðu gengið framar vonum og það það hefðu aðeins 15 úkraínskir hermenn fallið í átökunum síðustu daga. 

„Suma daga eru 100 til 150 stríðsfangar sem við tökum,“ segir Drozdenko. Margir væru ungir nýliðar í rússneska hernum. „Þeir vilja ekki berjast við okkurm.“

Myndbönd fóru í dreifingu snemma eftir að árásin var gerð, þar sem úkraínskir hermenn sjást hneppa fjölda rússneskra hermanna í prísund. Selenskí Úkraínuforseti segir herinn vera að „safna í skiptisjóð“, það er til fangaskipta. 

 Talsmenn úkraínska hersins hafa gefið frá sér stórar yfirlýsingar frá því að óvænt árásin hófst. Þar á meðal að sóknin sé einungis „fyrsta skrefið í því að færa bardagann nær Moskvuborg“.

Úkraínumenn hafa þegar eyðilagt tvær brýr í Kursk til þess að hefta birgðaflutninga. Í nótt sprengdi herinn brú sem lá yfir ána Seim. Í tilkynningu segist herinn hafa náð um 1.100 ferkílómetrum á sitt vald.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×