Bíó og sjónvarp

Jökull í Kaleo í Glæstar vonir

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Jökull og félagar í Kaleo hafa í nógu að snúast í Los Angeles.
Jökull og félagar í Kaleo hafa í nógu að snúast í Los Angeles.

Jökull Júlíusson söngvari Kaleo mun verða í gestahlutverki í einum frægustu sápuóperuþáttum veraldar, Glæstum vonum. Hann mun flytja eitt af frægustu lögum sveitarinnar í þættinum, Way Down We Go.

Bandaríski miðillinn Deadline greinir frá þessu. Í umfjöllun miðilsins kemur fram að Jökull muni taka upp atriðið í dag. Þátturinn verði birtur í sjónvarpinu á sjónvarpsstöðinni CBS þann 27. september næstkomandi.

Þættirnir eru heimsfrægir, gerast í Los Angeles og hverfast að mestu um Forrester fjölskylduna. Sú rekur eitt frægasta tískuhús í heimi í þáttunum góðu þar sem Ridge Forrester, Brooke og Taylor Forrester hafa oftar en ekki verið í stærstu hlutverkunum. Þættirnir eru Íslendingum góðkunnir enda verið sýndir á Stöð 2 um árabil.

Fram kemur að framleiðandi þáttanna hafi beðið Jökul um að vera með í þáttunum þar sem þeir hittust á Andrea Bocelli tónleikum. Bocelli hefur einmitt sjálfur brugðið fyrir í sápuóperuþáttunum vinsælu og er ekki sá eini.

Jökull fetar í fótspor tónlistarmanna Lil Nash og Usher, svo fáeinir séu nefndir. Nóg er að gera hjá Jökli og félögum í Los Angeles ef marka má bandaríska miðilinn, en næst setja þeir stefnuna á að heimsækja spjallþáttastjórnandann Jimmy Kimmel í þætti hans á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.