Sport

Jackie Chan hleypur með Ólympíueldinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jackie Chan er mjög vinsæll í Frakklandi og ein hans frægasta mynd var tekin upp í París.
Jackie Chan er mjög vinsæll í Frakklandi og ein hans frægasta mynd var tekin upp í París. Getty/Jun Sato/

Leikarinn og hasarhetjan Jackie Chan verður einn þeirra sem hleypur með Ólympíueldinn í kringum setningarhátíð Ólympíumóts fatlaðra í kvöld.

Á sjálfum Ólympíuleikunum sem lauk á dögunum þá var bandaríski rapparinn Snoop Dogg einn þeirra sem hljóp með Ólympíueldinn en það gerðu líka íþróttagoðsanir eins og þau Zinédine Zidane, Roger Federer og Serena Williams.

Chan er orðinn sjötugur en hann verður einn þeirra sem fá þann heiður að bera Ólympíueldinn þangað sem hann mun síðan loga allt Ólympíumótið.

Jackie Chan stórt nafn í Frakklandi. Þriðja myndin í Rush Hour seríunni var tekin upp í Frakklandi og eitt slagsmálaatriðanna fór fram á toppi Eiffel turnsins.

Setningarhátíð Ólympíumóts fatlaðra fer ekki fram á Signu eins og á Ólympíuleikunum heldur mun íþróttafólkið ganga um í skrúðgöngu um Parísarborg frá Sigurboganum að Place de la Concorde.

Þetta er í fyrsta sinn sem Ólympíumót fatlaðra er sett utan leikvangs.

Fánaberar Íslands á setningarhátíð leikanna verða þau Sonja Sigurðardóttir, sundkona, og Már Gunnarsson, sundmaður. Þetta er í þriðja skipti sem Sonja keppir á Paralympics en hún keppti einnig á leikunum í Peking árið 2008 og Ríó árið 2016. Már keppti líka á leikunum í Tókýó árið 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×