Gent sló út Partizan frá Belgrad með 1-0 heimasigri í kvöld, eftir að hafa einnig unnið 1-0 sigur í Serbíu í síðustu viku.
Landsliðsmaðurinn Andri Lucas Guðjohnsen var í byrjunarliði Gent í dag en fór af velli á 65. mínútu. Sigurmark leiksins kom á 88. mínútu.
Féllu úr öllum Evrópukeppnunum
Partizan hefur þar með tapað einvígi í undankeppnum allra þriggja Evrópukeppnanna. Fyrst féll liðið úr leik í 2. umferð undankeppni Meistaradeildarinnar, svo í 3. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar, og loks núna í umspili Sambandsdeildarinnar.
Gent verður hins vegar með í aðalkeppni Sambandsdeildarinnar og því mögulegt að Andri Lucas komi til Íslands og mæti Víkingum, ef þeir klára dæmið í Andorra á morgun eftir 5-0 sigur í heimaleiknum gegn Santa Coloma. Dregið verður um það á föstudaginn hvaða lið mætast í aðalkeppninni.