Tekjur framboðsins voru í heildina 17,7 milljónir króna. Framlög einstaklinga voru 780 þúsund krónur, en sjálf lagði Helga til tæpar sautján milljónir. Engar tekjur bárust frá lögaðilum, og þá eru engar tekjur skráðar sem „aðrar tekjur“.
Gjöld framboðsins voru nákvæmlega jafn há og tekjurnar. Í uppgjöri Helgu er þeim skipt þannig að ein milljón hafi farið í kosningaskrifstofu, 4,6 milljónir í auglýsinga- og kynningarkostnað, og þá hafi 12,1 milljón farið í annan kostnað. Síðan hafi ekkert farið í fundi og ferðakostnað.
Alls hlaut Helga 275 atkvæði í forsetakosningunum þann 1. júní síðastliðinn eða 0,1 prósent greiddra atkvæða.
Ef gjöldum framboðsins er deilt á fjölda atkvæða mætti komast að þeirri niðurstöðu að hvert atkvæði hafi kostað Helgu um 64 þúsund krónur. Til samanburðar kostaði hvert atkvæði Höllu Tómasdóttur 355 krónur, Jóns Gnarr 492 krónur og Katrínar Jakobsdóttur 1062 krónur.
Líkt og áður segir er Helga forstjóri Persónuverndar, en á meðan hún sinnti framboðinu var hún í launalausu leyfi.
Þegar þessi frétt er skrifuð eru óbirt uppgjör Arnars Þórs Jónssonar, Baldurs Þórhallssonar, Höllu Hrundar Logadóttur, Steinunn Ólínu Þorsteinsdóttur og Ásdísar Ránar Gunnarsdóttur.
Hér að neðan má sjá heildarkostnað og kostnað á hvert atkvæði hjá framboðunum sem hafa þegar birt uppgjörin sín.