Handtökuskipun var gefin út á hendur Gonzales síðasta mánudag en hann er meðal annars sakaður um að falsa opinber skjöl, hvatningu til að hunsa lög og samsæri gegn venesúelskum stjórnvöldum.
Í tilkynningu frá utanríkisráðuneyti Spánar segir að Gonzalez og Mercedes López de González eiginkona hans hafi lent á herstöðinni við Torrejon de Ardoz-héraði í dag.
„Þetta er sorgardagur fyrir lýðræði í Venesúela,“ sagði Josep Borrell utanríkismálastjóri Evrópusambandsins í yfirlýsingu í tengslum við málið. „Enginn pólitískur leiðtogi ætti að þurfa að leita hælis í öðru landi.“
Delcy Rodriguez varaforseti Venesúela sagði í tilkynningu á Instagram í dag að yfirvöld hefðu samþykkt brottför Gonzalez úr landi í von um að endurheimta pólitískan frið í landinu. Reuters hefur eftir utanríkisráðuneyti Spánar að engar viðræður hefðu verið milli yfirvalda landanna tveggja um flutning Gonzalez.
Miklar óeirðir urðu í Venesúela eftir forsetakosningar þar í landi í júlí, þegar Nicolas Maduro lýsti yfir sigri en Sameinuðu þjóðirnar hafa fordæmt kosningarnar vegna ógegnsæis. Bandaríkin, Evrópusambandið og önnur alþjóðleg öfl hafa viðurkennt sigur Gonzalez í kosningunum.
Að minnsta kosti 27 manns hafa látist í aðgerðum stjórnvalda til þess að bæla niður mótmæli eftir kosningarnar og um 2.400 manns hafa verið handteknir.
Í umfjöllun Reuters segir að Gonzalez hafi leitað skjóls í sendiráðum bæði Hollands og Spánar eftir kosningarnar í júlí.