Körfubolti

KR fær króatískan mið­herja

Valur Páll Eiríksson skrifar
Vlatko Granic er nýjasti leikmaður KR.
Vlatko Granic er nýjasti leikmaður KR. Mynd/KR

KR heldur áfram að styrkja hóp sinn fyrir komandi leiktíð í Bónus-deild karla í körfubolta. Króatískur miðherji er genginn í raðir félagsins.

KR-ingar hafa styrkt sig duglega í sumar eftir að hafa fagnað sigri í næst efstu deild í vor. Landsliðsmaðurinn Þórir Guðmundur Þorbjarnarson gekk í raðir félagsins líkt og Orri Hilmarsson og Þorvaldur Orri Árnason. Allir þrír eru uppaldir vestur í bæ.

Lettinn Linards Jaunzems kom til félagsins fyrir helgi og KR hækkar nú meðalhæðina í liðinu með komu króatísks miðherja.

Sá heitir Vlatko Granic. Hann er þrítugur Króati og er 206 sentímetrar að hæð. Vlatko lék með Weatherford College og Loyola University í háskólaboltanum í Bandaríkjunum en frá 2018 hefur hann leikið víðs vegar um Evrópu, meðal annars í Bretlandi, Tékklandi, Króatíu, Búlgaríu, Slóvakíu og síðast á Ítalíu.

Nú bætist Ísland við þann lista.

Á síðasta tímabili lék hann með Ristopro Fabriano í ítölsku B-deildinni, en þar var Vlatko með 11,7 stig og 5,8 fráköst í leik.

Haft er eftir Jakobi Erni Sigurðarsyni, þjálfara KR, um Vlatko:

„Ég er mjög ánægður að fá Vlatko í KR. Hann kemur með hæð og reynslu í liðið og er fjölhæfur leikmaður sem getur nýst okkur á margan hátt. Ég tel að hann muni passa vel inn í þann góða hóp sem við erum með,“ segir Jakob í tilkynningu KR.

KR hefur leik í Bónus-deild karla þann 5. október næst komandi. Liðið sækir Tindastól heim á Sauðárkrók í fyrsta leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×