Íslandsmeistarinn í CrossFit keppti þarna annað árið í röð í flokki sextán til sautján ára en í fyrra vann hún bronsverðlaun á þessu heimsmeistaramóti CrossFit íþróttarinnar.
Það var því stefnan hjá henni að komast aftur á verðlaunapall sem gekk ekki eftir. Bergrós lenti langt á eftir efstu stelpunum í byrjun og þrátt fyrir nokkrar góðar greinar á síðustu dögunum þá tókst henni ekki að komast ofar en í fimmta sætið.
Bergrós hefur nú gert upp keppnina í pistil á samfélagmiðlum sínum. „Vonsvikin en stolt,“ byrjar Bergrós uppgjör sitt.
„Við lögðum svo mikið á okkur fyrir þessa helgi og það er sárt að hafa ekki náð að gera mitt besta þegar það skipti mestu máli. Ástæðurnar voru mistök, léleg framkvæmd eða þættir sem ég réði ekki við,“ skrifaði Bergrós.
„Þegar ég yfirgaf keppnisgólfið upplifði ég blöndu af vonbrigðum, pirringi og ruglingi eftir næstum því allar greinarnar mínar,“ skrifaði Bergrós.
„Það er erfitt að sætta sig við það hvernig þetta endaði hjá mér á þessu tímabili. Þegar ég horfi samt á allt tímabilið í heild sinni, vinnuna sem ég lagði á mig, bætingarnar og allt sem ég og þjálfari minn Eggert Ólafsson náðum að afreka þá get ég annað en verið stolt,“ skrifaði Bergrós.
„Þetta er bara byrjunin,“ skrifaði Bergrós í lokin.