Þetta kemur fram í nýbirtum úrskurðum nefndarinnar. Um nafnið Álft segir að nafnið standist flest skilyrði mannanafnalaga en að það reyni á það skilyrði hvort nafnið geti orðið nafnbera til ama.
Fram kemur í úrskurði að samnöfn skepna í íslensku séu nafnhæf af hefð, til að mynda svanur, örn, björn og haukur. Önnur sé velflest til ama og niðrandi, til að mynda gammur, tittlingur, álka og mús og megi í þessum efnum ekki rugla gælunöfnum við fuglsheiti svo sem Lóa fyrir Ólöf.
Fífl, trunta eða skrípi
Í úrskurðinum segir að fuglsheitið svanur er samheiti við álft en sé aftur á móti mannsnafn samkvæmt hefð og kemur meðal annars fyrir í Brennu-Njálssögu. Eiginnafnið Svana sé á mannanafnaskrá og megi túlka sem kvenkyns nafnmynd af Svanur.
„Álft er merarnafn og kerlingarálft er skammaryrði og er þá -álft í merkingunni fífl, trunta eða skrípi og er þannig notað jöfnum höndum við -álka sem einnig er fuglsheiti sem notað er í niðrandi merkingu. Orðið hefur því neikvæða og óvirðulega merkingu.“
Hlutast ekki til um gælunöfn
Mannanafnanefnd segir að nafnið Álft geti að mati nefndarinnar valdið nafnbera ama. „Hafa ber í huga að samþykki mannanafnanefnd eiginnafn, færist það á mannanafnaskrá. Það kann að leiða til þess að börn geta hlotið það, en mikilvægir hagsmunir barna eru að þeim séu ekki gefin nöfn sem telja verður ósiðleg, niðrandi eða meiðandi sbr. greinargerð með frumvarpi til laga um mannanöfn.
Bent skal á að fullveðja einstaklingur sem hefur í hyggju að kjósa sér nafn af einhverjum ástæðum sem að öllu jöfnu kynni að valda barni sem nafnhafa ama, getur í daglegu lífi sínu viðhaft það nafn þótt það fái ekki opinbera skráningu hjá stjórnvöldum og færist ekki á mannanafnaskrá. Mannanafnanefnd hlutast ekki til um gælunöfn, listræn nöfn eða önnur þau nöfn eða nefni sem kunna að tíðkast í daglegu lífi utan opinberrar skráningar,“ segir í úrskurði mannanafnanefndar.