Enski boltinn

Vonar­stjarna Liver­pool með brotið bein í fæti

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elliott mun ekki spila fyrir Slot næstu vikurnar.
Elliott mun ekki spila fyrir Slot næstu vikurnar. Michael Regan/Getty Images

Miðjumaðurinn efnilegi Harvey Elliott verður frá keppni næstu vikurnar en hann braut bein í fæti í landsliðsverkefni með U-21 árs landsliði Englands á dögunum. Talið er að hann verði frá næstu sex vikurnar eða svo.

Hinn 21 árs gamli Elliott hefur aðeins komið við sögu í einum deildarleik Liverpool undir stjórn Arne Slot. Hann var í miklum metum hjá forvera hans Jurgen Klopp og skoraði 4 mörk ásamt því að gefa 11 stoðsendingar í þeim 53 leikjum sem hann spilaði á síðustu leiktíð.

Slæmu fréttirnar fyrir Slot eru þær að Curtis Jones er einnig að glíma við meiðsli og liðið því heldur þunnskipað á miðsvæðinu. Það gæti því verið að Slot þurfi að prófa einhverjar nýjungar á miðjunni meðan beðið er eftir því að Jones og Elliott snúi til baka.

Liverpool er með fullt hús stiga í ensku úrvalsdeildinni og getur unnið fjórða leikinn í röð þegar Nottingham Forest kemur í heimsókn á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×