Enski boltinn

Svarar Ronaldo: „Hann er langt í burtu“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ten Hag og Ronaldo er ekki til vina.
Ten Hag og Ronaldo er ekki til vina. Getty/James Gill

Erik ten Hag hefur svarað gagnrýni Portúgalans Cristiano Ronaldo á hans störf sem þjálfara Manchester United.

Manchester United hefur tapað tveimur af fyrstu þremur leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni í ár eftir að hafa hafnað í áttunda sæti í fyrra. Ronaldo var ómyrkur í máli og gagnrýndi þjálfarann Erik ten Hag.

„Knattspyrnustjórinn lýsir því yfir að þeir geti ekki keppt um Englandsmeistaratitilinn eða unnið Meistaradeildina,“ sagði Cristiano Ronaldo hneykslaður í hlaðvarpsþætti Rio Ferdinand. BBC segir frá.

„Þegar þú ert stjóri Manchester United þá er það ekki í boði að segja að þú getir ekki keppt um Englandsmeistaratitilinn eða unnið Meistaradeildina. Þú verður að reyna að vinna,“ sagði Ronaldo.

Ten Hag stýrði Ronaldo hjá United en þeirra samskipti fóru í frost og endaði með því að Ronaldo yfirgaf félagið.

Æsir sig ekki yfir ummælunum

Ten Hag sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag fyrir leik Manchester United við Southampton á suðurströndinni í hádeginu á laugardag. Þar var hann spurður út í ummæli Portúgalans. Hann sagði þau lítil áhrif hafa á sig.

„Hann sagði að Manchester United gæti ekki unnið deildina, hann sagði það ef þú lest greinina vel. Hann er langt í burtu, Sádi-Arabía er langt frá Manchester. Öllum er heimilt að hafa sína skoðun, það er í fínu lagi,“ segir ten Hag.

„Við skulum sjá hvar við stöndum í maí á næsta ári. Tímabilið er ný hafið og þetta snýst um að keppa um titla og vera eins ofarlega í deildinni og mögulegt er. Við munum reyna allt til að vinna hvern einasta leik og svo sjáum við hvar við stöndum í maí,” bætir hann við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×