Enski boltinn

Eng­lands­meistarinn Ing­le með slitið kross­band

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ingle í leiknum gegn Feyenoord.
Ingle í leiknum gegn Feyenoord. Harriet Lander/Getty Images)

Englandsmeistarar Chelsea hafa orðið fyrir áfalli þegar gríðarlega stutt er í að ofurdeild kvenna í fótbolta fari af stað á nýjan leik. Hin 33 ára gamla Sophie Ingle sleit nefnilega krossband í hné í vináttuleik á dögunum og verður ekki með á komandi leiktíð.

Ingle kom inn af bekknum í vináttuleik gegn Feyenoord þann 7. september síðastliðinn en þurfti að fara meidd af velli á 74. mínútu. 

Nú hefur verið greint frá því að þessi landsliðskona frá Wales sé með slitið krossband og verði frá svo gott sem alla leiktíðina. Fyrir voru þær Sam Kerr – ein besta knattspyrnukona heims – og Mia Fishel á meiðslalistanum en báðar eru að glíma við svipuð meiðsli.

Ingle hefur spilað sinn þátt í einokun Chelsea á enska meistaratitlinum en liðið hefur farið með sigur af hólmi undanfarin fimm ár. Þá hefur hún þrívegis orðið enskur bikarmeistari.

Á síðustu leiktíð varð Ingle svo leikjahæsti leikmaður í sögu Ofurdeildar kvenna á Englandi. Hefur hún alls spilað 192 leiki. Þá hefur hún leikið 139 landsleiki fyrir Wales.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×