Fótbolti

Salvatore Schillaci látinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Salvatore Schillaci, 1964-2024.
Salvatore Schillaci, 1964-2024. getty/Alessandro Sabattini

Ein af skærustu stjörnum heimsmeistaramótsins í fótbolta 1990, Salvatore Schillaci, er látinn, 59 ára að aldri.

Schillaci greindist með krabbamein í ristli fyrir tveimur árum. Hann var lagður inn á spítala í heimaborg sinni, Palermo á Sikiley, í síðustu viku og lést svo í dag.

Schillaci lék sextán landsleiki fyrir Ítalíu og skoraði sjö mörk. Sex þeirra komu á HM á Ítalíu 1990.

Hann var lítt þekktur fyrir mótið en sló eftirminnilega í gegn í ítalska liðinu sem vann til bronsverðlauna á heimavelli. Schillaci var markakóngur HM og valinn besti leikmaður keppninnar.

Schillaci tókst hins vegar engan veginn að fylgja velgengninni á HM eftir og var farinn að spila í Japan 29 ára.

Schillaci hóf ferilinn með Messina en lék einnig með Juventus, Inter og Júbilo Iwata í Japan.

Með því að smella hér má sjá langt viðtal sem Gary Lineker tók við Schillaci fyrir YouTube-síðu FIFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×