Íslenski boltinn

„Mér finnst að allar þessar krúsídúllur eigi að bíða“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óskar Hrafn Þorvaldsson tók við KR fyrir nokkrum vikum.
Óskar Hrafn Þorvaldsson tók við KR fyrir nokkrum vikum. vísir/diego

Lárus Orri Sigurðsson, sérfræðingur Stúkunnar, segir að það væri affarsælast fyrir Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfara KR, að einfalda hlutina hjá liðinu.

KR tapaði 4-1 fyrir Val í Bestu deild karla á mánudaginn og er aðeins þremur stigum frá fallsæti fyrir úrslitakeppnina.

Lárusi finnst KR-ingar vera að reyna of flókna hluti í leikjum sínum síðan Óskar tók við liðinu.

„Mér finnst þetta svolítið skrítið hjá honum Óskari að rokka svona með þetta fram og til baka. Horfandi á þetta lið er það eðlilega með ekkert sjálfstraust, mjög lítið sjálfstraust, og ég hefði haldið að einföld, skýr skilaboð væru það besta sem þeir gætu fengið,“ sagði Lárus í Stúkunni á mánudaginn.

„Óskar er með sín prinsipp og hefur verið yfirlýsingar um að hann vilji ekki liggja til baka; vilji ekki gera hitt og vilji ekki gera þetta. Hann verður kannski að leggja sín prinsipp aðeins til hliðar núna og vera þessi mikli KR-ingur sem hann kallar eftir að allir séu og gera bara einfalda hluti og hjálpa liðinu að komast í gegnum þetta tímabil. Og fara þá kannski að smíða eftir sinni hugmyndafræði.“

Klippa: Stúkan - Lárus Orri um KR

Lárus er ekki hrifinn af staðsetningum bakvarða KR og öðru slíku í leik liðsins.

„Mér finnst að allar þessar krúsídúllur eigi að bíða. Núna á bara að gera skipið stöðugt og koma sér í gegnum þetta tímabil eins skammarlaust og hægt er og ekki falla. Það segir sig sjálft. Ég held að það sé pínu hroki að KR-ingar séu ekki að tala um fall því þeir verða að horfast í augu við það,“ sagði Lárus.

„Óskar sagði í viðtalinu hérna áðan að það væri ekki gott að vakna og hugsa um fall. Ég held að það sé bara ágætt fyrir þá. Að það fyrsta sem þeir hugsi um þegar þeir vakni á morgnana sé að þeir geti fallið. Þannig að einfalda hlutina, koma sér í gegnum tímabilið og ekki vera með þessar krúsídúllur núna.“

Innslagið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Flestir mæta á heimaleiki Blika

Fleiri áhorfendur mættu á leiki fram að úrslitakeppni Bestu deildar karla í fótbolta í ár en í fyrra. Nú hefur deildinni verið skipt í tvennt og fram undan fimm æsispennandi umferðir í neðri og efri hluta.

Svona raðast leikirnir í Bestu deild karla

Drög að leikjaniðurröðun fyrir lokakafla Bestu deildar karla í fótbolta hefur verið opinberuð á heimasíðu KSÍ. Spennan er að líkindum mest fyrir mögulegum úrslitaleik Víkings og Breiðabliks í efri hlutanum en spennan er mikil víða í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×