Tónlist

Ævin­týrin hófust þegar hann hafnaði Juilliard

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Bergur Þórisson ræddi við blaðamann um ævintýralegt líf sitt og feril.
Bergur Þórisson ræddi við blaðamann um ævintýralegt líf sitt og feril. Vísir/Vilhelm

„Ennþá í dag er ég mjög þakklátur að hafa tekið þessa ákvörðun en ég skil hana samt ekki alveg því hún meikar ekki sens þegar maður er átján ára. Ég hef ekki heyrt um neinn annan sem hefur tekið þessa ákvörðun,“ segir tónlistarstjórinn Bergur Þórisson sem hafnaði inngöngu í hinn virta Juilliard háskóla í New York á sínum tíma og í kjölfarið fór ferilinn á flug.

Billy Elliot breytti leiknum

Bergur hefur alltaf fylgt innsæinu og nokkrum árum síðar var hann orðinn tónlistarstjóri Bjarkar Guðmundsdóttur og farinn að vinna um allan heim. Blaðamaður ræddi við Berg um ævintýralegt líf hans, ferðalög um heiminn og nýja tónlistarhátíð sem hann er að setja af stað.

„Ég byrjaði eins og flest allir á blokkflautu um sjö ára aldur. Það var frekar fljótlega sem ég fattaði að mig langaði að verða tónlistarmaður. 

Hljóðfærið mitt var básúna sem var ekki endilega frábært hljóðfæri til að vinna sem tónlistarmaður, það er bara mjög takmarkaðir hlutir sem maður getur gert með það en ég ætlaði samt bara að verða básúnuleikari og stefndi á það lengi vel,“ segir Bergur aðspurður um upphaf tónlistarferilsins.

Hann segist samt aldrei hafa hugsað þetta alveg í gegn eða séð nákvæmlega fyrir sér hvað hann vildi.

„Auðvitað veit maður ekki alltaf með minningar frá því maður var krakki hversu áreiðanlegar þær eru en sagan sem er í hausnum á mér er að ég man að ég sá Billy Elliot í sjónvarpinu og hann fór í Juilliard.

Þannig að ég hugsaði Juilliard, það er eitthvað dæmi, ég þarf að checka á því. Og svo varð þetta einhver heilavírus hjá mér að ég varð að fara í Juilliard. Maður getur gert það átján ára, ég fór í MH, kláraði á þremur árum og fór svo í inntökuprófið.“

Bergur Þórisson byrjaði ungur að læra á básúnu og sá fyrir sér að verða básúnuleikari.Vísir/Vilhelm

Komst inn og fattaði að hann vildi ekki inngöngu

Bergur segist hafa undirbúið sig fáránlega vel fyrir inntökuferlið en fékk ákveðna uppljómun í kjölfarið.

„Svo komst ég inn. Það var mómentið sem ég fattaði bara heyrðu vil ég þetta? Afhverju vil ég þetta og hvenær ákvað ég það? Þá var ég í raun ekki búinn að hugsa um það í tíu ár afhverju ég vildi þetta, þetta var bara eitthvað markmið.“

Juilliard er með virtustu listaháskólum í heimi og þaðan koma heimsfrægir leikarar á borð við Violu Davis. Sömuleiðis hefur skólinn verið vinsæll í dægurmenningu.

„Þetta er auðvitað mjög eftirsóttur skóli og ótrúlega fáir sem komast inn, það er bara mjög erfitt. Það er ekki endilega þar með sagt að flestum sem útskrifast þaðan gangi eitthvað ótrúlega vel.

Auðvitað er mikið af flottu fólki sem kemur þaðan, eins og Víkingur Heiðar, en svo er líka endalaust af fólki sem hefur farið þangað sem enginn veit hver er og er að vinna við eitthvað allt annað.“

Bergur Þórisson stefndi lengi á að komast inn í Juilliard. Þegar hann svo komst inn áttaði hann fór hann að hugsa lengra.Vísir/Vilhelm

Ákveðin uppljómun að hugsa lengra

Blaðamaður spyr hvort það hafi þó ekki þurft ákveðið hugrekki til þess að taka slíka ákvörðun.

„Ég var meira að segja búinn að borga staðfestingargjald þegar ég neitaði skólavistinni. Það kom bara allt í einu yfir mig eitthvað, ég bara gat þetta ekki. Líka af því ég þurfti að fara að hugsa einu skrefi lengra.

Þegar ég er búinn með Juilliard hvað ætla ég að gera þá? Ég fattaði að möguleikarnir væru ekki endilega margir. 

Jú kannski get ég orðið heimsfrægur básúnuleikari og reynt að lifa á því en það er samt ógeðslega erfitt, kannski enda ég á að koma heim og orðið tónlistarkennari allt gott með það en ég er ekki að fara í Juilliard endilega til þess. Ég fékk boð um stóran styrk en samt, að búa í New York og allt það er heljarinnar fjárfesting.“

Engin pressa frá foreldrum

Hann sér sannarlega ekki eftir þessu.

„Ennþá í dag er ég mjög þakklátur að hafa tekið þessa ákvörðun en ég skil hana samt ekki alveg því hún meikar ekki sens þegar maður er átján ára. Ég hef ekki heyrt um neinn annan sem hefur tekið þessa ákvörðun.

Af því þau sem komast þarna inn eru búin að hafa það að markmiði frá því þau voru börn. Oft er auðvitað líka rosaleg pressa frá foreldrum og ég er mjög heppinn með það að það var ekki þannig hjá mér. 

Foreldrar mínir höfðu ekkert með þetta að gera, það var engin pressa frá þeim. Mér leið ekki eins og ég væri að bregðast þeim eins og ég held að fólk upplifi oft í þessu.“

Bergur var feginn að upplifa aldrei pressu frá foreldrum sínum.Vísir/Vilhelm

Aðstoðarmaður Óla Arnalds og BAFTA verðlaun

Í kjölfar þessarar afdrifaríku ákvörðunar hjá Bergi áttu ýmis ævintýri eftir að koma til hans.

„Ég var ótrúlega heppinn því ég var alltaf með dellu fyrir upptökum, pabbi er rafmagnsverkfræðingur og það tengist því örugglega eitthvað. Ég fékk frábæran básúnukennara sem heitir Helgi Hrafn og hann var nýkominn frá Austurríki úr námi. Hann á konu sem heitir Tina Dickow og er dönsk söngkona, þau fluttu til Íslands og voru að byggja stúdíó.

Við gerðum díl að hann myndi kenna mér fleiri aukatíma gegn því að ég hjálpaði honum í stúdíóinu. Þannig að ég óvart varð aðstoðarmaðurinn hans. Þetta er þannig vinna að það er bara starfsreynsla sem telur, þú þarft að leggja klukkutímana í þetta. 

Þegar ég hafnaði skólavist í Juilliard þá áttaði ég mig alveg á því að stúdíóvinnan heillaði mig, mér fannst mjög gaman og ég var góður í henni. Ég sá það alveg sem einn af möguleikunum þó að ég væri ekki búinn að ákveða mig. Ég hugsaði kannski færi ég til Berlínar ári síðar.“

Svo gerist þetta frekar fljótt. Óla Arnalds vantaði aðstoðarmann fyrir sjónvarpsþáttaseríuna Broadchurch sem hann var að gera og ég dett inn í það með honum.“

Óli og Bergur þekktust lítið fyrir en höfðu aðeins kynnst í gegnum Helga Hrafn.

„Ég heyrði svo að hann væri að óska eftir fólki og þetta „line-aðist“ upp. Þannig hefur eiginlega allt verið hjá mér síðan þá. Það hefur einhvern veginn eitt leitt af öðru.

Ég túraði svo með Óla út um allan heim, við byrjuðum að spila fyrir ekkert svo marga yfir í mjög marga. Minnstu giggin 200 og fórum uppi 2500 og núna fyrir enn fleiri. Þarna er ég bara átján, nítján ára. Svo fengum við Óli BAFTA verðlaun fyrir sjónvarpsseríuna og bara allt gekk einhvern veginn upp.“

„Geturðu unnið með Björk á morgun?“

Út frá þessu byrjaði Bergur að kynnast alls konar fólki, Sigurrósar strákunum, Jóhanni Jóhannssyni, Damien Rice og hinum og þessum.

Bergur var sömuleiðis með stúdíó úti á Granda þar sem hann segir að hafi verið öflugt samfélag af fjölbreyttu tónlistarfólki. Einn daginn fær hann svo örlagaríkan tölvupóst.

„Björk var búin að vera að vinna með gaur sem bjó í Svíþjóð sem var alltaf að fljúga fram og til Íslands, eignaðist svo barn og hana vantaði einhvern að vinna með. Ég fæ bara tölvupóst einn daginn: Hæ geturðu unnið með Björk á morgun? Ég var 21 árs á þessum tíma.“

Aðspurður hvernig hann hafi brugðist við segir Bergur:

„Ég náttúrulega bara ýtti allri dagskrá til hliðar og auðvitað er algjör draumur að vinna með henni. Hún er náttúrulega bara stjarnan en ekki bara það, hún er svo ótrúlega skapandi og allt sem hún gerir er svo áhugavert. Þannig að það small hjá okkur.“

Það tók þó smá tíma fyrir þetta að þróast.

„Ég var náttúrulega skíthræddur fyrst og vissi ekkert, ég gerði lítið verkefni með henni og vissi ekkert hvað henni fannst um það eða mína vinnu. Svo líður alveg einn og hálfur mánuður þar sem ég heyri ekkert frá henni.

Einn daginn þegar ég er í París fæ ég símtal úr númeri sem ég þekkti ekki og þá var það Björk að spyrja mig hvort ég gæti unnið saman í næstu viku. Það var ótrúlegur léttir að vita bara ókei, ég var ekki að drulla upp á bak,“ segir Bergur kíminn.

Lífið tók ævintýralega stefnu hjá Bergi eftir örlagaríkan tölvupóst um samstarf við Björk.Vísir/Vilhelm

Gleymir því hratt hvað þetta er stórt

Í upphafi samstarfsins var Bergur aðallega að vinna með Björk í upptökuvinnu og öðru slíku í stúdíóinu.

„Við gerum svo eina plötu sem heitir útópía. Þegar það kemur að tónleikaferðalagi plötunnar spyr Björk mig hvort ég vilji ekki bara spila með. Hlutverk mitt núna er tónlistarstjóri eða musical director og inni í því er öll umsjón.

Hún er „the visionary“ en þegar við erum á tónleikaferðalagi þarf hún að passa upp á sína orku til þess að geta staðið í 90 mínútur og performað fyrir framan 100 þúsund manns. 

Þá er það mitt hlutverk að passa upp á gæðastjórnun, passa upp á soundcheckið, að öllum líði vel og allir viti hvað þeir eiga að vera að gera og allt þetta. Sömuleiðis er fullt af undirbúningsvinnu.“

Hann segist hafa verið fljótur að aðlagast tempóinu.

„Maður gleymir því auðvitað mjög hratt hvað þetta er stórt. Eins og maður hittir alls konar frægt fólk og maður er löngu hættur að pæla í því,“ segir Bergur en hann var sem dæmi að spila með Björk á Coachella tónlistarhátíðinni þar sem Kardashian fjölskyldan var baksviðs að hvetja áfram eiginmann Kourtney Kardashian, Travis Barker úr Blink 182.

„Það er í raun svo lítill munur að skipuleggja tónleika fyrir 100 þúsund manns og fyrir 1500. Þó að það sé auðvitað brjálaður munur á fjölda og þannig þá er eiginlega enginn munur.“

Töfrar Íslands engum líkir

Hann segir sömuleiðis fyndið að rólegasti tíminn í hans lífi sé vanalega þegar hann er á tónleikaferðalagi.

„Því við erum að spila kannski þrisvar í viku og svo er bara fullt af frítíma. En þegar ég er á Íslandi er ég alltaf búinn að lofa mér í alls konar verkefni með hinum og þessum. Svo er ég með Björk inn á milli.“

Það er mikilvægt fyrir Berg að halda góðri tengingu og samstarfi við Ísland.

„Ég er mjög mikið spurður að því sérstaklega þegar ég er úti bara afhverju ég flytji ekki til Los Angeles, hvað ertu að pæla, þú gætir verið með aðal stúdíóið þitt þar. 

En því meira sem ég ferðast því meira langar mig að vera hér heima. Ég get ekki alveg útskýrt það, það er bara eitthvað við Ísland sem einkennist af algjörum töfrum.

Ég hef auðvitað oft verið marga mánuði úti, verið á sama staðnum lengi, í LA, New York og alls konar en það er bara eitthvað við Ísland sem er öðruvísi. 

Vinnan er skemmtilegri hérna, sköpunin er einhvern veginn mikið áhugaverðari og skemmtilegri. Ég reikna fastlega með því að eiga grunn hér heima en svo veit maður aldrei hvað gerist.“

Bergur er með glæsilegt stúdíó á Íslandi og líður vel heima.Vísir/Vilhelm

Með stóran kór í Japan og túlk

Bergur hefur sem áður segir lent í ýmsum ævintýrum í starfi sínu.

„Það sem mér hefur fundist áhugaverðast í stóra Bjarkar túrnum er að þá höfum við verið með kór sem hefur oft verið lókal kór. Stundum höfum við tekið með okkur íslenskan kór sem er náttúrulega brjálað batterí. En það er svo ótrúlega áhugavert af því það er mitt hlutverk að sjá um kórinn.

Þá fer ég kannski viku á undan að vinna með kórnum, til dæmis til Mexíkó eða Japan með japönskum kór með túlk. Það er svo ótrúlega misjafnt, maður heldur einhvern veginn að allir upplifi tónlist eins en það er fjarri lagi. Maður fattar svo mikið hvernig fólk skynjar tónlist og takt, það er svo gjörólíkt eftir því hvar maður er í heiminum á svo ótrúlega fallegan hátt.

Sumt föttuðu Japanarnir kannski ekki en svo var annað sem þeir negldu á hátt sem enginn annar gæti komist nálægt. Sama má segja með strengjahljómsveitir. Að mæta til Argentínu þar sem karlarnir sitja neðarlega í stólnum með vindilinn og spila á sinn einstaka hátt og svo eru Japanir ótrúlega agaðir og alveg beinir í baki.

Þetta að fá að sjá allan þennan mismunandi kúltúr í tónlist er svo magnað. Af því maður setur tónlist svo mikið í eitt box. Auðvitað er til japönsk tónlist, kúbönsk, afrísk og fleira. En að sjá fólk túlka til dæmis sama Bjarkar lagið á gjörólíkan máta er svo magnað. Þetta er náttúrulega tungumál og fólk er með einhvers konar hreim, hvernig sem maður lítur á það.“

Barokk á Auto og flygill á bílaverkstæði

Bergur er nú í óðaönn við að skipuleggja tónlistarhátíð á Íslandi ásamt Bjarna Frímanni, Magnúsi Jóhanni og Sverri Páli. Tónlistarhátíðin ber heitið State of The Art og fer fram 8. - 13. október. Hér má nálgast nánari upplýsingar um hana. 

„Við verðum með alls konar áhugaverða og öðruvísi viðburði. Við sem erum að skipuleggja þetta erum allir í tónlist en við ákváðum að það væri auðveldast að við værum sem minnst sjálfir sem tónlistarmenn.

Við ætluðum fyrst ekki að vera neitt en ákváðum svo að vera eitthvað smá. Okkur langar hér að búa til platform fyrir tónlist sem fólk gæti ekki séð annars staðar. Skeyta saman alls konar hlutum sem okkar tengingar gera okkur kleift að búa til.

Til dæmis erum með við tónleikana Bríet með ADHD, þar sem Bríet er að spila með ADHD. Við erum að fá pródúsent og strengjaleikara sem heitir Miguel Atwood Ferguson. Hann hefur unnið með öllum, frá Stevie Wonder og Ray Charles yfir í alla rapparana. Hann er að koma með sitt prógramm og spila með Elju strengjasveit. 

Plata sem hann gaf út í fyrra var einmitt valin besta plata ársins hjá Guardian. Við ætlum að vera með barrokk tónleika á Auto með DJ og lazer- sýningu og reykvélar. Sömuleiðis flytjum við flygil inn á bílaverkstæði.

Auðvitað er hægt að sjá það sem einhverja klisju að ætla að gera eitthvað svona en okkur finnst mikilvægt að gera alla tónlist aðgengilega öllum.

Við erum búnir að vera svo lengi í þessu umhverfi að okkur finnst alveg eðlilegt að fara á sinfóníutónleika í Hörpu en við áttum okkur alveg á því að fyrir fullt af fólki er þröskuldur þar sem því dettur ekki í hug að fara yfir.

Við erum að opna á þetta. Það er líka áhugavert hvað það er búið að setja alla tónlist í box í dag, þetta er popp, þetta er rokk, þetta er klassík. Það er ekkert alveg þannig. Klassísk tónlist var einu sinni popp. Þetta er allt abstrakt.“

Strákarnir eru vel tengdir í tónlistarheiminum og reyna að vinna vel úr því fyrir hátíðina.

„Það er ekkert bannað. Það er ekki bannað fyrir fólk að fíla klassíska tónlist á bílaverkstæði þótt það fíli ekki að fara á sinfóníutónleika.“

Magnús Jóhann, Bergur, Sverrir Páll og Bjarni Frímann.stateoftheartfestival.is

Draumur að eiga sveitabæ með ástinni

Bergur er í sambandi með Salóme Hollandes og þau hafa verið par í um sjö ár.

„Hún starfar sem hönnuður og er algjörlega frábær. Hún er mjög umburðarlynd og þetta hefur alltaf virkað mjög vel.

Í Covid þá ákvað ég að kaupa húsnæði úti á Granda og byggði stúdíó þar. Þannig að núna er ég komin með algjört draumastúdíó þar. Að einhverju leyti langar mig mest að vera að vinna þar að einhverju dóti en svo er auðvitað mjög gaman að ferðast. Þetta er allt gott í bland.“

En ætli tilvistarkreppan komi einhvern tíma í heimsókn til Bergs?

„Ég hugsa auðvitað oft bara ætti ég að selja allt? Ég á rosa mikið af upptökugræjum og dýru dóti. Ég hugsa stundum á ég að losa mig við þetta og fara bara og kaupa mér sveitabæ einhvers staðar. 

Það er einhver svona langtíma draumur að vera með stúdíó úti í sveit, vera með gróðurhús og svo mætir fólk í stúdíóið og það er verið að elda úr tómötum frá gróðurhúsinu, við værum líka til í að vera með hesta. Það er einhver mynd af draumi framtíðar og maður veit ekkert hvað gerist gæti gerst.

En auðvitað hugsar maður stundum nú verð ég að fara að finna mer eitthvað annað að gera,“ segir Bergur hlæjandi.

„Ástríðan er samt bara alltaf til staðar og ég er náttúrulega ótrúlega þakklátur. Þetta eru auðvitað fáránleg tækifæri sem ég hef fengið og ég hef verið heppinn, þó ég trui ekki endilega á heppni. Þú leggur inn einhverja vinnu og þá er líklegra að þú verðir heppinn. 

Ég var auðvitað heppinn á þessu mómenti í mínu lífi að fá að vinna með Björk, ef það hefði gerst seinna gæti allt litið öðruvísi út.“

Björk endalaus uppspretta frumlegra hugmynda

Bergur er sömuleiðis á hliðarlínunni að starfa með Reykjavík Orchestra að taka upp strengi fyrir Hollywood verkefni.

„Það er gaman að setja tánna inn þar þó ég vilji alls ekki fara alla leið inn í þann heim. Ég vinn mikið en fólkið þar, ég skil ekki hvernig það er hægt að vinna jafnvel 22 tíma daga. 

Þar eru oft einhverjir á næturnar með okkur á Zoom í upptökum, ég skil ekki hvernig það virkar en einhvern veginn þarf að gefa myndina út á réttum tíma.“

Framtíðin er björt hjá Bergi og sér hann fyrir sér ýmsa spennandi möguleika.

„Björk er náttúrulega ótrúleg týpa og mig langar alls ekki að hætta að vinna með henni. Hún er endalaus uppspretta af nýjum hugmyndum og efni, hún hættir aldrei að fá góðar hugmyndir, þetta er svo fjölbreytt og alls ekki einhæft sem við erum að gera.“

Innsæið órjúfanlegur hluti af sköpuninni

Innsæið hefur fram að þessu reynst honum vel.

„Ég er mjög mikið að vinna með innsæið. Ég fæ oft hugmyndir sem fólki finnst heimskulegar, eins og að fara í að byggja þetta stúdíó sem er risa og rosa flott. Stúdíó í dag meikar kannski ekki eins mikið sens og áður því svo margir eru bara að taka upp í herberginu sínu.

Svo keypti ég mér Steinway flygil sem er bara eins og flyglarnir niðri í Hörpu sem meikar engan sens en svo er ég strax samt farinn að fá sturluð verkefni þar sem útlendingar eru að koma til Íslands til þess að vinna með mér því ég er með þennan flygil.

Þannig að ég hef ekki endilega tekið skynsamlegar ákvarðanir þegar maður horfir á þær beint en þegar maður horfir til baka þá var þetta algjörlega rétt og ekki tilviljun og ekki heppni, heldur það sem átti að gerast,“ 

segir Bergur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.