Enski boltinn

Tíma­bilið búið hjá Rodri?

Valur Páll Eiríksson skrifar
Rodri segir leikmenn ekki geta sýnt sínar bestu hliðar þurfi þeir að spila sextíu leiki á ári.
Rodri segir leikmenn ekki geta sýnt sínar bestu hliðar þurfi þeir að spila sextíu leiki á ári. Getty/Carl Recine

Rodri, miðjumaður Manchester City og spænska landsliðsins, er sagður alvarlega meiddur eftir að hafa vikið af velli í 2-2 jafntefli liðsins við Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í gær. Um mikla blóðtöku er að ræða fyrir Englandsmeistarana.

Rodri meiddist á hné í leiknum í gær og eru breski blaðamaðurinn David Ornstein sem og bandaríski miðilinn ESPN á meðal þeirra sem segja meiðslin alvarleg. Allar líkur séu á því að krossband í hnéi Rodri sé slitið og tímabil hans því búið.

Rodri hefur reynst mikilvægasti leikmaður City-liðsins síðustu misseri og verið áþreifanlegur munur á spilamennsku liðsins þegar sá spænski er ekki með. Hann er talinn á meðal allra bestu leikmanna heims.

Rodri er 28 ára gamall og hefur leikið fyrir City frá árinu 2019. Hann hefur unnið fjóra Englandsmeistaratitla með liðinu.

Hann fór þá fyrir liði Spánar sem varð Evrópumeistari í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×