Innlent

Sjónar­mið Mið­flokksins og Arnars Þórs skarist að mörgu leyti

Jón Þór Stefánsson skrifar
Arnar Þór átti eðlilegt og gott samtal við Miðflokkinn að sögn Bergþórs.
Arnar Þór átti eðlilegt og gott samtal við Miðflokkinn að sögn Bergþórs. Vísir/Vilhelm

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, segir fulltrúa flokksins og Arnar Þór Jónsson, hafa átt gott samtal sem hafi ekki skilað neinni niðurstöðu.

Í dag greindi Arnar Þór frá því að viðræður hans við Miðflokkinn hefðu strandað. Hann var áður varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins en íhugar nú að stofna sinn eigin stjórnmálaflokk.

„Við erum í samtali við marga þessa dagana,“ segir Bergþór í samtali við fréttastofu.

„Sjónarmið Miðflokksins og Arnars Þórs Jónssonar, sem hann hefur sett fram, skarast að mörgu leyti. Þannig að þetta var bara eðlilegt og gott samtal sem leiddi ekki til neinnar niðurstöðu.“

Arnar talaði um í dag að hann hefði ekki fengið efnisleg svör frá ykkur. Hafið þið eitthvað að segja við því?

„Nei nei, ég held að það hafi nú bara verið partur af þessu samtali sem átti sér stað og ég hef svo sem ekkert um það að segja sérstaklega.“

Að sögn Arnars gæti hann hæglega unnið með Miðflokknum færi hann á þing. Bergþór segir Miðflokkinn geta unnið með öllum. Það sé þó auðveldara þegar grunnsjónarmiðin séu lík.

Bergþór segist ekki hræddur um að mögulegur flokkur Arnars myndi stela fylgi af Miðflokknum, sem hefur verið að mælast gríðarlega vel í skoðanakönnunum.

„Það á enginn neitt í pólitík. Það hefur auðvitað bara sinn gang og kjósendur ákvarða það á kjördegi, þannig að við veltum því ekki neitt sérstaklega fyrir okkur í þessu samhengi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×