Enski boltinn

Man United stefnir á að vinna ensku úr­vals­deildina árið 2028

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Omar Berrada, til vinstri á mynd, er framkvæmdastjóri Manchester United.
Omar Berrada, til vinstri á mynd, er framkvæmdastjóri Manchester United. Getty Images/Eddie Keogh

Manchester United stefnir á að verða Englandsmeistari árið 2028 en sama ár fagnar liðið 150 ára afmæli sínu. Þetta staðfesti Omar Berrada, nýráðinn framkvæmdastjóri félagsins, á fundi með starfsmönnum Man United nýverið.

Það er The Athletic sem greinir frá þessu. Þar segir að Berrada, sem gekk til liðs við United frá nágrönnum þeirra í Manchester City í sumar hafi deilt þessu markmiði með starfsmönnum félagsins á Old Trafford nýverið.

Markmiðið gengur undir nafninu „Áætlun 150“ þar sem Man Utd á þá 150 ára afmæli. Félagið Newton Heath var stofnað árið 1878 áður en það breytti nafni sínu í Manchester United árið 1902.

Frá því að Sir Jim Ratcliffe keypti hlut í félaginu hafa miklar breytingar átt sér stað en auðjöfurinn vill skýra stefnu til lengri tíma og er þetta merki þess.

Man Utd hefur ekki unnið ensku úrvalsdeildina í meira en áratug og er ekki líklegt til árangurs á yfirstandandi leiktíð, það þarf því margt að breytast á næstu árum eigi þetta að ganga eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×