Vand­ræði Man City án Rodri halda á­fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Joško Gvardiol skoraði mark gestanna í dag.
Joško Gvardiol skoraði mark gestanna í dag. EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Englandsmeisturum Manchester City tókst ekki að hrista af sér þá staðreynd að liðinu gengur gríðarlega illa án miðjumannsins Rodri en liðið gerði 1-1 jafntefli við Newcastle United í Norður-Englandi í fyrsta leik 6. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta.

Rodri meiddist nýverið illa á hné og verður ekki meira með á yfirstandandi leiktíð. Það er mikið högg fyrir lærisveina Pep Guardiola sem virðast hvorki fugl né fiskur án spænska miðjumannsins.

Leikur dagsins á St. James´ Park var nokkuð jafn framan af en gestirnir komust yfir þegar tíu mínútur voru til loka fyrri hálfleiks. Jack Grealish fann þá varnarmanninn Joško Gvardiol inn á teig.

Gvardiol gerði frábærlega, sendi Dan Burn út í sjoppu þegar hann þóttist fara upp að endalínu en skar boltann yfir á hægri. Hann lagði boltann svo með sínum lakari fæti í gegnum klof Sandro Tonali og niðri í markhornið fjær, staðan 0-1 í hálfleik.

Tiltölulega snemma í síðari hálfleik slapp Anthony Gordon einn í gegnum vörn Man City. Hann féll til jarðar eftir heldur litla snertingu frá markverðinum Ederson en vítaspyrna dæmd og Ederson fékk gult spjald að launum, eitt af átta gulum spjöldum leiksins.

Gordon fór sjálfur á punktinn og jafnaði metin, staðan orðin 1-1 og reyndust það lokatölur í Norður-Englandi.

Man City heldur toppsætinu og er nú með 14 stig að loknum sex umferðum en bæði Liverpool og Aston Villa geta náð toppsætinu með sigri um helgina. Þá getur Arsenal jafnað toppliðið að stigum. Newcastle er svo með 11 stig í 5. sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira