Arsenal skaut Refina í blá­lokin

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þessir tveir voru allt í öllu í sóknarleik sinna liða.
Þessir tveir voru allt í öllu í sóknarleik sinna liða. EPA-EFE/DANIEL HAMBURY

Skytturnar skutu Refina í kaf í blálokin í kaflaskiptum leik á Emirates-leikvangingum í Lundúnum, lokatölur 4-2.

Heimaliðið byrjaði leikinn mun betur og virtist ætla að skjóta refina í Leicester City í kaf. Gabriel Martinelli var allt í öllu í sóknarleik Arsenal.

Brasilíumaðurinn skoraði fyrra mark fyrri hálfleiksins eftir undirbúning Jurrien Timber og lagði upp síðara mark liðsins sem Leandro Trossard skoraði, staðan 2-0 Arsenal í vil þegar gengið var til búningsherbergja.

Skoraði og lagði upp í dag.EPA-EFE/DANIEL HAMBURY

Refirnir bitu frá sér í upphafi síðari hálfleiks þegar James Justin skoraði eftir sendingu hins 19 ára gamla Facundo Buonanotte og leikurinn óvænt orðinn galopinn. Arsenal svaraði um hæl og var liðið næstum búið að bæta við þriðja marki sínu á 53. mínútu en Mads Hermansen varði meistaralega í markinu. Skömmu síðar átti Trossard svo skot í stöngina.

Það kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar gestirnir jöfnuðu metin á 63. mínútu. Það kom ef til vill enn meira á óvart að James Justin var að skora sitt annað mark í leiknum. Wilfred Ndidi átti fyrirgjöf frá vinstri og Justin smellhitti boltann í fyrsta, boltinn í stöng og inn. Þetta var aðeins fjórða mark Justin í ensku úrvalsdeildinni og hann því tvöfaldað heildarmarkafjölda sinn með mörkunum tveimur í dag.

Staðan var enn jöfn þegar venjulegum leiktíma lauk en sjö mínútum var bætt við og þar tókst Arsenal að skófla boltanum tvívegis yfirmarklínuna. Þriðja mark liðsins kom á 94. mínútu og var skráð á Trossard en gæti hafa verið sjálfsmark á meðan Kai Havertz skoraði það fjórða eftir gríðarlegan klaufagang í vörn Refanna á sjöundu mínútu uppbótartíma. 

Lokatölur 4-2 og Arsenal komið með 14 stig líkt og topplið Manchester City að loknum sex umferðum. Á meðan eru nýliðar Leicester enn án sigurs í 16. sæti með aðeins þrjú stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira