Enski boltinn

Gerði grín að Konaté sem vildi verða maður leiksins

Sindri Sverrisson skrifar
Ibrahima Konaté var bæði hetja og skúrkur um tíma í leiknum gegn Wolves í dag.
Ibrahima Konaté var bæði hetja og skúrkur um tíma í leiknum gegn Wolves í dag. Getty/John Powell

Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, brást léttur við þeirri skoðun Ibrahima Konaté að hann hefði nú átt að verða valinn maður leiksins gegn Wolves í dag, og var ekki alveg sammála miðverðinum.

Óhætt er að segja að Konaté hafi verið áberandi í leiknum í dag, sem Liverpool vann á endanum 2-1.

Konaté skoraði fyrsta mark leiksins með frábærum skalla, eftir fyrirgjöf frá Andy Robertson, en átti svo alla sök á jöfnunarmarki Úlfanna. Það kom eftir að Konaté reyndi að skýla boltanum aftur fyrir endamörk, með mjög afslöppuðum hætti, en upp úr því skoraði Rayan Ait-Nouri.

Á endanum kom það ekki að sök og Mohamed Salah skoraði sigurmark Liverpool úr vítaspyrnu strax í kjölfarið.

Ekki sáttur við Gary Neville

Mistök Konaté voru þó sjálfsagt sérfræðingum Sky Sports í huga þegar þeir völdu Ryan Gravenberch sem mann leiksins. Konaté var beðinn um að afhenda félaga sínum viðurkenninguna og sló þá á létta strengi:

„Hver velur eiginlega mann leiksins? Hvernig er þetta mögulegt? Þetta er vinur minn og ég verð að gefa honum þetta. En ég skoraði í Mílanó og ég skoraði í dag... átti ég þetta ekki skilið?“ spurði Konaté léttur.

„Hvað gerðist? Þið verðið að tala við þann sem ákveður þetta,“ sagði Konaté og þegar hann fékk svar við því bætti hann við: „Gary Neville... takk fyrir, Gary!“

Eftir þetta var skipt yfir á Arne Slot sem var spurður hvað honum þætti um kröfu Konaté.

„Konaté? Tja, hann hefur þá kannski gleymt augnablikinu þegar við fengum á okkur mark. Það er þá kannski ástæðan fyrir því að við fengum þetta mark á okkur, að hann var ekki alveg með þar, því það er óhætt að segja að það hefði mátt koma í veg fyrir þetta,“ sagði Slot.

Konaté hefur átt fast sæti í liði Liverpool síðan Slot skipti honum inn á í upphafi seinni háflleiks gegn Ipswich, í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×