Fótbolti

Andri skoraði fyrir slaginn við Chelsea

Sindri Sverrisson skrifar
Andri Lucas Guðjohnsen hefur nú skorað tvö mörk fyrir Gent.
Andri Lucas Guðjohnsen hefur nú skorað tvö mörk fyrir Gent. Getty

Tveggja mánaða bið eftir marki lauk hjá framherjanum stæðilega Andra Lucasi Guðjohnsen í dag þegar hann gerði þriðja mark Gent í 3-0 sigri gegn OH Leuven í belgísku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Þetta var annað mark Andra fyrir Gent en hann skoraði í fyrsta leik sínum fyrir liðið, eftir að hafa verið keyptur frá Lyngby í sumar, í 1-0 útisigri gegn Kortrijk 28. júlí.

Sigurinn í dag var kærkominn fyrir Gent eftir óvænt 2-1 tap gegn Cercle Brugge á fimmtudaginn, í leik þar sem Andri Lucas átti stoðsendinguna í marki Gent.

Max Dean og Noah Fadiga komu Gent í 2-0 á fyrstu 13 mínútum leiksins í dag og Andri skoraði svo á 78. mínútu eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

Gent er því með 16 stig og fór með sigrinum úr sjöunda sæti upp í það þriðja, en er jafnt Antwerpen sem er í 2. sæti. Genk er á toppnum með 22 stig. OH Leuven er í 12. sæti.

Næsti leikur Gent er af stærra taginu því liðið sækir enska stórliðið Chelsea heim á Stamford Bridge, í Sambandsdeild Evrópu á fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×