Enski boltinn

Spilar ekki í deildinni fyrr en í nóvember

Valur Páll Eiríksson skrifar
Fernandes skilur ekkert í ákvörðun dómarans og mun líklega sækjast eftir styttra leikbanni.
Fernandes skilur ekkert í ákvörðun dómarans og mun líklega sækjast eftir styttra leikbanni. Catherine Ivill - AMA/Getty Images

Bruno Fernandes, miðjumaður Manchester United, fer í þriggja leikja bann vegna brots á James Maddison í 3-0 tapi Rauðu djöflanna fyrir Tottenham á Old Trafford í gær. Vera má að banninu verði áfrýjað.

Fernandes var vísað af velli fyrir ofbeldisfulla hegðun en hann fór heldur ofarlega með fótinn og tæklaði Maddison í hnéð. Dómurinn þótti þó heldur strangur en samkvæmt reglum ensku úrvalsdeildarinnar fara leikmenn sjálfkrafa í þriggja leikja bann þegar beint rautt spjald er gefið fyrir gróft brot.

Útlit er fyrir að Fernandes spili þá ekki deildarleik fyrir United fyrr en gegn Chelsea í byrjun nóvember, hann verði frá í öllum þremur leikjum liðsins í október; gegn Aston Villa, Brentford og West Ham United.

„Ég fer ekki með takkana í hann, heldur ökklann. Þetta er klárlega brot en aldrei rautt spjald, það er mín skoðun,“

„Ég skil ekki af hverju VAR kallaði dómarann ekki í skjáinn. Fyrir mér er þetta alls ekki góð ákvörðun,“ sagði Fernandes um atvikið.

Líklegt þykir að lengd bannsins verði áfrýjað en Fernandes býr sig nú undir ferð heim til Portúgal. United sækir Porto heim í Evrópudeildinni á fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×