„Á Herferð verður fjallað um allt sem fellur undir breitt svið markaðsmála og býðst fagfólki að senda inn verkefni sín þar til umfjöllunar. Ekki verður tekið greitt fyrir að hljóta birtingu á miðlinum. Einnig verða þar birtir pistlar ásamt ritstýrðu efni svo sem viðtöl við markaðsþenkjandi stjórnendur og fleiri,“ segir í tilkynningu frá miðlinum.
Fyrsti viðmælandi er Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar. Hann ræðir m.a. mikilvægi markaðsmála fyrir framgang fyrirtækisins ásamt frekari fyriráætlunum um hinn kostnaðarsama Collab-útflutning.
„Markmiðið með Herferð er að styrkja ásýnd og umfjöllun um skapandi markaðs- og auglýsingamál á Íslandi og stuðla að því að markaðsfólk geti orðið enn áhrifameira afl í íslensku viðskiptalífi. Herferð skapar þannig tækifæri fyrir fagfólk í markaðsmálum til að koma sér á framfæri og veitir vettvang fyrir faglega umræðu um íslensk markaðsmál,“ segir í tilkynningunni.
Vísað er til sambærilegra miðla erlendis svo sem AdWeek, The Drum og Kampanje.
Að Herferð standa þær Anna Margrét Gunnarsdóttir og Erna Hreinsdóttir. Báðar hafa þær fjölbreyttan bakgrunn í fjölmiðlum, markaðsmálum og almannatengslum, bæði á Íslandi og erlendis. Þær störfuðu saman um hríð í ritstjórn tímaritsins Nýs Lífs sem var og hét og hafa unnið saman að ýmsum verkefnum síðan. Anna Margrét er sérfræðingur í fyrirtækjasamskiptum og rekur Altso ráðgjöf og Erna rekur vörumerkja- og vefstúdíóið Blóð sem sérhæfir sig í að efla ásýnd vörumerkja á netinu hérlendis sem og erlendis.
„Við lítum á þennan miðil sem öflun á samtímaheimildum í faginu sem hefur verið ábótavant. Þetta er okkar framlag í að stofna til gagnagrunns um íslenska sköpunargleði í dægurmenningu; auglýsingagerð, mörkun, markaðshugsjónir og ekki síst endurspeglun á íslenska menningu. Við treystum á áhuga fagfólks og áhugamanna um að hlúa að Herferð með okkur og stuðla að sterkum og langlífum fagmiðli sem mun efla bransann hér á landi,“ segir Erna.
„Eftir að hafa unnið erlendis undanfarinn áratug með miðlun og samskipti, rákum við okkur á að það vantaði góðan og faglegan vettvang til að fjalla um markaðsmál á Íslandi. Það var því upplagt að ráðast í að koma Herferð á laggirnar og gera okkar til að styðja við umræðuna um íslensk markaðsmál og styrkja í leiðinni ásýnd iðnaðarins,“ segir Anna Margrét.