Innlent

Hálft landið án raf­magns

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eins og sjá má nær rafmagnsleysið yfir stóran hluta landsins.
Eins og sjá má nær rafmagnsleysið yfir stóran hluta landsins. RARIK

Víðtækt rafmagnsleysi allt frá Vesturlandi um Norðurland og austur á firði stendur yfir. Ástæðuna má rekja til truflunar á flutningskerfi Landsnets í kjölfar útleysingar hjá Norðuráli.

Truflunin varð klukkan 12:25 samkvæmt tilkynningu frá Rafmagnsveitum ríkisins. 


Varðst þú fyrir rafmagnsleysi? Hafði það áhrif á þitt daglega líf? Sendu okkur ábendingu á ritstjorn@visir.is..


„Þessi truflun hafði áhrif á víðfeðm svæði, þar með talin Glerárskógar á Vesturlandi, Norðurland og austur á firði, sem leiddu til rafmagnsleysis. Landsnet og RARIK vinna nú að greiningu á orsökum truflunarinnar og enduruppbyggingu kerfisins. Mikil eftirspurn er eftir þjónustu símkerfis RARIK vegna þessa atviks, og við biðjum viðskiptavini um þolinmæði meðan unnið er að því að koma rafmagni á aftur. “

Úr öryggismyndavélakerfi Vaðlaheiðarganga.

Rafmagnsleysið hefur meðal annars haft áhrif á lýsingu í Vaðlaheiðargöngum. Þar er skert lýsing og fólk hvatt til að aka varlega og hafa kveikt á ljósum sínum sem fyrr. Íbúar á Grenivík, Ólafsfirði, Langanesbyggð og Húsavík segja frá rafmagnsleysi í sinni byggð í athugasemdum við Facebook-færslu Vaðlaheiðarganga.

Uppfært klukkan 13:43

Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnets segir að uppbygging kerfisins gangi vel og vonandi styttist í að allir verði komnir með rafmagn. Hún segir ekki meira liggja fyrir um upptök rafmagnleysisins en að högg hafi komið á flutningskerfið og kerfið á þeim svæðum sem datt út ekki ráðið við álagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×