Lífið

Patrik sýnir frá lífinu í Flórída á meðan stormurinn gengur yfir

Jón Þór Stefánsson skrifar
Patrik hefur sýnt áhorfendum veðrið í Orlando í Flórída.
Patrik hefur sýnt áhorfendum veðrið í Orlando í Flórída. Skjáskot/Patrik

Tónlistarmaðurinn Patrik Atlason, einnig þekktur sem Prettyboitjokko, er í Flórída þar sem fellibylurinn Milton hefur gengið yfir. Þar er hann í glæsihýsi ásamt stórfjölskyldunni, þar á meðal er afi hans Helgi Vilhjálmsson, oftast kenndur við Góu.

Í gær sýndi Patrik fylgjendum sínum á Instagram frá lífinu í Flórída á meðan stormurinn var í aðsigi.

„Jújú, þið lásuð rétt. Ég er staddur í Orlando, Flórída. Hurricane Milton er að fara að skella á í kvöld. Fólk er búið að segja okkur að leita skjóls, en við erum ekki að fara neitt. Við erum bara að fara taka storminn inn,“ sagði Patrik, sem tók þó fram að það mikilvægasta væri að halda sér öruggum á meðan óveðrið ríður yfir.

Patrik sagði að vinur hans sem er búsettur í Atlanta hafi boðist til að taka á móti fjörutíu manns. Hann hafi þakkað gott boð, en þau ætli að halda sér í Flórída.

Þrátt fyrir að stormur væri í aðsigi virtist ekki vanta hjá Patrik að hafa gaman. Hann sýndi frá komu sinni í stóran leikjasal þar sem hann prófaði meðal annars sýndaveruleikagleraugu. Þar á eftir fór hann á pizzastað.

„Klukkan er að verða þrjú. Eini staðurinn sem var opinn heitir Marcos Pizza. Það er ekki nema tveggja tíma bið í pizzuna. En ég er ekkert stressaður.“

Þá sýndi hann reglulega frá veðrinu við húsið þar sem fjölskyldan gistir. Af myndum hans að dæma var mikil rigning, en ekki var hægt að sjá að stormurinn væri farinn að ganga yfir af miklum krafti þar sem hann var staðsettur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.