Erlent

Ethel Kennedy er látin

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Ethel Kennedy, ekkja Roberts F. Kennedy er látin.
Ethel Kennedy, ekkja Roberts F. Kennedy er látin. Getty

Ethel Kennedy, ekkja Roberts F. Kennedy er látin, 96 ára að aldri. Kennedy fékk heilablóðfall í síðustu viku og var í aðhlynningu vegna þess þegar hún lést síðastliðin fimmtudag að því er haft er eftir Joe Kennedy III, barnabarni hennar og fyrrverandi þingmanni.

Eiginmaður Ethel Kennedy, Robert F. Kennedy var skotinn til bana sumarið 1968. Mágur hennar og fyrrverandi Bandaríkjaforseti John F. Kennedy, hlaut sömu örlög fimm árum áður,1963. Eftir fráfall eiginmanns síns helgaði Ethel Kennedy lífi sínu því að ala upp börn sín ellefu og vann í þágu hins opinbera alla tíð, að því er segir í frétt NBC af andlátinu.

Kennedy fjölskyldan hefur verið valdamikil í Demókrataflokknum í gegnum tíðina. Á þessari fjölskyldumynd má sjá þá kjörinn forseta John F. Kennedy fyrir miðju. Með á myndinni eru einnig Robert Kennedy og Ethel Kennedy ásamt fleirum úr fjölskyldunni.Getty

Joe Kennedy III greindi frá andláti ömmu sinnar á X, þar sem hann minnist hennar sem baráttukonu fyrir réttlæti og mannréttindum. Hún skilji eftir sig níu börn, 34 barnabörn og 24 langömmubörn.

Sex vikum fyrir andlát hennar dró þriðja barn hennar, Robert F. Kennedy yngri, til baka framboð sitt til forseta Bandaríkjanna og uppskar reiði fjölskyldu sinnar, sem kennd er við Demókrataflokkinn, fyrir að lýsa yfir stuðningi við Donald Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×