Erlent

Ekki grunaður um að hafa ætlað að drepa Trump

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Eftir tvö banatilræði gegn Donald Trump er öryggisgæslan í kringum fundi hans gríðarlega umfangsmikil.
Eftir tvö banatilræði gegn Donald Trump er öryggisgæslan í kringum fundi hans gríðarlega umfangsmikil. EPA-EFE/BIZUAYEHU TESFAYE

Manninum sem var handtekinn á kosningafundi Donalds Trump í Kalíforníu um helgina hefur nú verið sleppt úr haldi gegn tryggingu.

Í fyrstu var talið að um banatilræði hefði verið að ræða en hinn 49 ára gamli Vern Miller var tekinn höndum í grennd við kosningafund Trumps vopnaður skammbyssu og haglabyssu. Að auki var hann með nokkur vegabréf og ökuskírteini á sér undir mismunandi nöfnum.

Áður en Miller var látinn laus var hann kærður fyrir að hafa vopnin ólöglega undir höndum, sem er minniháttar brot, að sögn BBC. Aðrar kærur munu ekki vera í undirbúningi og því virðist sem forsetanum fyrrverandi hafi ekki staðið nein ógn af Miller, ólíkt fyrstu fréttum af málinu.

Áður hafði verið haft eftir lögreglustjóranum Chad Bianco að Miller væri "brjálæðingur" og að tekist hefði að koma í veg fyrir þriðja banatilræðið gegn Donald Trump á stuttum tíma. CBS fréttatofan bandaríska hefur hinsvegar eftir ónefndum alríkislögreglumanni að ekkert bendi til þess að Miller hafi haft í hyggju að ráða Trump af dögum.


Tengdar fréttir

„Þriðja banatilræðinu“ gegn Trump afstýrt

Maður sem var með tvö skotvopn og fjölmörg vegabréf í fórum sínum var handtekinn á kosningafundi Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, við Coachella-dal í Kaliforníu-ríki í Bandaríkjunum í gær. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×