Sport

Rekin úr Ólympíu­þorpinu í París en selur nú á­skriftir á On­lyFans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luana Alonso er búin að setja sundhettuna upp á hillu þrátt fyrir að vera bara tvítug. Hún náði þó að keppa á tveimur Ólympíuleikum.
Luana Alonso er búin að setja sundhettuna upp á hillu þrátt fyrir að vera bara tvítug. Hún náði þó að keppa á tveimur Ólympíuleikum. @luanalonsom

Sundkonan Luana Alonso komst í fréttirnar á Ólympíuleikunum í París í sumar en þó ekki fyrir árangur sinn í sundlauginni.

Alonso keppti fyrir Paragvæ og varð aðeins í 29. sæti í undanrásum í 100 metra flugsundi.

Strax eftir að ljóst var að hún kæmist ekki í undanúrslitin þá tilkynnti hún að væri hætt að keppa í sundi. Það gerði hún á miðjum Ólympíuleikum og þrátt fyrir að vera aðeins tvítug.

Þetta voru hennar aðrir Ólympíuleikar og hún á fjölda paragvæska meta í flugsundi.

Þetta vakti vissulega athygli en hún komst þó ekki almennilega í heimsfréttirnar fyrr en að paragvæska Ólympíusambandið ákvað að reka hana úr Ólympíuþorpinu fyrir að hafa truflandi áhrif á aðra keppendur frá Paragvæ.

Hún átti að hafa búið til „óviðeigandi andrúmsloft“ í paragvæska hópnum eins og það var orðað.

Það er aftur á móti líf eftir sundið hjá Luana Alonso en hún selur nú aðgang að efni frá sér á OnlyFans. Nettavisen fjallar um þetta.

Hún hefur lengi verið risastór samfélagsstjarna með yfir milljón fylgjendur á Instagram sem dæmi.

Nú ætlar hún að vinna fyrir sér með því að safna áskriftum á OnlyFans en það kostar 27 pund á mánuði að vera áskrifandi hjá henni. Það gera tæplega fimm þúsund íslenskar krónur.

„Ég lofa ykkur að þið sjáið ekki eftir því að verða áskrifendur. Við munum skemmta okkur saman,“ skrifaði hún á miðla sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×