Uppfært klukkan 13:19
Svandís Svavarsdóttir hefur staðfest við fréttastofu að hún ætli að mæta til fundarins. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu mæta allir ráðherrar VG til fundarins.
Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna og innviðaráðherra, tilkynnti í gær að frá og með deginum í dag yrðu þau Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra almennir þingmenn.
Vilja ekki vera með
Þau myndu ekki taka sæti í starfstjórn undir forystu Bjarna Benediktssonar, sem Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, óskaði eftir að myndi starfa þar til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð.
„Kemur í ljós“
Boðað hefur verið til ríkisstjórnarfundar klukkan fjögur í dag. Sighvatur Arnmundsson, upplýsingafulltrúi forsætisráðuneytisins, segir í samtali við Vísi að allir ráðherrarnir hafi verið boðaðir á fund, þar með talið ráðherrar Vinstri grænna.
Vísir sló á þráðinn til Pálínu Axelsdóttur Njarðvík, aðstoðarmanns matvælaráðherra, til þess að falast eftir svörum um það hvort ráðherrar Vinstri grænna hyggist mæta.
„Það kemur í ljós,“ sagði hún en kvaðst ekki búa yfir upplýsingum um hvenær það kæmi í ljós.