Evrópumeistarar Real Madríd lagði Borussia Dortmund 5-2 þegar liðin mættust í 3. umferð Meistaradeildar Evrópu karla í fótbolta í kvöld. Gestirnir frá Þýskalandi leiddu með tveimur mörkum í hálfleik en heimamenn sýndu mátt sinn og megin í síðari hálfleik.
Real er ríkjandi Evrópumeistari eftir sigur á Dortmund í úrslitum í vor og því áttu gestirnir harma að hefna. Að því sögðu var ekki beint búist við því að þeir myndu mæta til Madrídar og sækja þrjú stig.
Sú skoðun margra breyttist á fjögurra mínútna kafla í fyrri hálfleik þegar gestirnir skoruðu tvö mörk og gjörbreyttu ásýnd leiksins. Donyell Malen skoraði fyrra markið með góðu skoti innan vítateigs eftir sendingu Serhou Guirassy.
Það var svo Malen sem lagði boltann á Jamie Gittens sem skoraði af stuttu færi örskömmu síðar og staðan allt í einu orðin 0-2. Strax í kjölfarið skutu heimamenn tvívegis í marksúlurnar en gestirnir lifðu af og staðan 0-2 þegar gengi var til búningsherbergja.
Eitthvað hefur Carlo Ancelotti sagt við sína menn í hálfleik því ekki gerði hann breytingar á liði Evrópumeistaranna. Heimamenn höfðu ógnað markinu en þegar sléttur hálftími lifði leiks hófst endurkoman.
Kylian Mbappé lyfti boltanum þá inn á teig þar sem Antonio Rüdiger mætti og stangaði boltann af öllu afli í netið. Leikmenn Dortmund voru varla búnir að átta sig á að Real hafði minnkað muninn þegar Vinícius Júnior hafði jafnað metin.
Það var svo á 83. mínútu sem fyrirliðinn Lucas Vázquez kom Real yfir með þrumuskoti úr þröngu færi hægra megin í teignum. Setja má spurningu við Gregor Kobel í marki gestanna.
Gobel kom sömuleiðis engum vörnum við þegar Vinícius Jr. fullkomnaði sigur Real tæplega þremur mínútum síðar með mögnuðu skoti eftir að hafa fengið boltann frá Jude Bellingham.
Vinícius Jr. fullkomnaði svo frábæran síðari hálfleik sinn og samherja sinna í uppbótartíma þegar hann skoraði þriðja mark sitt og fimmta mark Real. Staðan orðin 5-2 og reyndust það lokatölur á Bernabéu í kvöld.
Real er nú með sex stig eftir þrjár umferðir en liðið tapaði óvænt fyrir Lille í 2. umferð. Dortmund er sömuleiðis með sex stig en situr í 5. sæti að svo stöddu.